Íslenska lyfjafyrirtækið Coripharma lauk nýverið 1,5 milljarða króna hlutafjáraukningu til að styðja enn frekar við framtíðarvöxt félagsins með þróun nýrra samheitalyfja og áframhaldandi uppbyggingu söluteymis.
Félagið sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og útflutningi samheitalyfja ásamt því að sinna verktakaframleiðslu fyrir önnur lyfjafyrirtæki. Síðasta sumar hóf Coripharma sölu á sínu fyrsta eigin þróaða samheitalyfi en það er flogaveikilyfið Eslicarbazepine.
Jónína Guðmundsdóttir forstjóri Coripharma segir félagið stefna á að setja árlega 4-6 ný samheitalyf á markað í samstarfi við alþjóðleg lyfjafyrirtæki. „Við sjáum fram á að árið 2024 verði fyrsta stóra árið okkar. Eftir mikla þróunarvinnu síðustu ár búum við okkur undir að koma fimm af okkar eigin þróuðu samheitalyfjum á markað á næsta ári,“ segir Jónína.
Tvöfalda vörusöluna
Jónína segir Coripharma stefna á að tvöfalda vörusöluna á þessu ári samanborið við síðasta ár, en félagið er nú þegar komið með yfir 80% af þeirri áætlun í bindandi pantanir.
„Coripharma er að vinna með tvö tekjustreymi. Það er sala á okkar eigin þróuðu lyfjum, sem á eftir að aukast hratt á komandi árum, og síðan tökum við einnig að okkur verktakaframleiðslu fyrir önnur lyfjafyrirtæki. Með því erum við meðal annars að vinna í því að auka magnið í verksmiðjunni og fá tekjur á móti fastakostnaði“.
Nánar er rætt við Jónínu í Viðskiptablaðinu sem kemru út á morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.