Farice, sem tengir Ísland við umheiminn með fjarskiptasæstrengjunum FARICE-1, DANICE og IRIS, hefur tekið í rekstur varaleið fjarskipta um gervihnetti fyrir útlandasambönd. Með varaleiðinni er verið að styrkja fjarskiptaöryggi Íslands með því að gera gervihnattasambönd aðgengileg fyrir samfélagslega mikilvæg fyrirtæki og stofnanir.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu þar sem segir að tilgangurinn sé að tryggja lágmarksnetsamband við útlönd ef til þess kæmi að fjarskiptasamband um alla sæstrengi við Ísland er rofið.

Þessi nýja þjónusta, Varaleiðin, sé útlanda internetgátt sem noti eingöngu gervihnetti og Farice hafi þróað hana undanfarin misseri. Hún sé boðin í heildsölu til fjarskiptafyrirtækja og internetþjónustuaðila til endursölu. Markmiðið sé að kerfislega mikilvægir aðilar skrái sig fyrir þjónustunni hjá sínu fjarskiptafyrirtæki eða internet þjónustuaðila. Farice muni virkja leiðina í samstarfi við fjarskiptafyrirtækin. Varaleiðin sé ekki hugsuð fyrir almenna internetumferð heimila heldur fyrir mikilvæga innviði, stofnanir og fyrirtæki.

Varaleiðin byggi á samnýtingu dreifðra móttökustaða auk fjölbreyttra gervihnattasambanda til þess að auka öryggi. Leiðin sé hönnuð til þess að virkjast sjálfkrafa við heildarútfall fjarskiptasambanda um sæstrengina án aðkomu tæknimanna.

Örn Orrason, sölu- og þróunarstjóri Farice:

„Ísland getur ekki verið ótengt og ákveðnar sviðsmyndir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að koma á varasambandi með gervihnöttum til að tryggja fjarskiptasamband fyrir allra nauðsynlegustu grunnþjónustu. Þjónustan er hönnuð þannig að gervihnattaleiðin virkjast sjálfkrafa fyrir skráða viðskiptavini missi landið alfarið samband um sæstrengi af einhverjum ástæðum.

Í grunnþjónustunni eru í upphafi tvö gervihnattafyrirtæki nýtt til að auka öryggið. Við virkjun er stýring umferðar gerð miðlæg og getur kerfið forgangsraðað notkuninni þannig að mikilvæg fjarskiptaumferð fái forgang. Ekki er þörf á að setja upp sérstakan búnað hjá viðskiptavinum heldur nýtist almenna internet tenging viðkomandi fyrirtækis.

Fyrstu viðskiptavinir geta tengst fljótlega og við teljum mikilvægt að allir kerfislega mikilvægir aðilar á Íslandi skrái sig fyrir þjónustunni. Þeir eiga að geta skráð sig fyrir þjónustunni hjá viðkomandi þjónustuaðila en við gerum ráð fyrir að flestir þjónustuaðilar endurselji þjónustuna. Við munum síðan með reynslunni þróa og styrkja þjónustuna enn frekar í samráði við hagsmunaaðila.“

Í fréttatilkynningunni segir að Farice tengi Ísland við umheiminn með rekstri þriggja sæstrengja þar sem mikil áhersla sé lögð á öryggi og kerfið sé hannað til að þola áföll. Öryggi kerfisins felist í þremur fjarskiptasæstrengjum sem lendi á mismunandi stöðum um landið og séu tengdir fjölda ljósleiðara á landi á Íslandi og erlendis. Með rekstri varaleiðar um gervihnetti sé fjarskiptaöryggi Íslands styrkt enn frekar.