Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, lagt fram drög að frumvarpi um að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndagerðar úr 25% í 35% fyrir stór verkefni. Breytingin var meðal kosningaloforða Framsóknar fyrir síðustu þingkosningar og var hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Í drögunum segir að gert hafi verið ráð fyrir 1.453,2 milljóna króna fjárheimild til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi í ár. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að hækka þurfi fjárheimild til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar um 300 milljónir króna miðað við framlag ársins 2022.
Í tilkynningu segist menningar- og viðskiptaráðuneytið hafa ráðgert að leggja frumvarpið fram á næsta haustþingi en ákvað að flýta vinnunni og leggja frumvarpið fram nú á vorþingi. Frumvarpið sé þó áfram í vinnslu í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið.
„Víða í nágrannalöndum Íslands er það hlutfall komið í 35% og eru það þau lönd sem Ísland á í mestri samkeppni við í að laða til sín stærri og lengri tíma kvikmynda- og sjónvarpsverkefni og er því mikið hagsmunamál fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað að lögin verði endurskoðuð með tilliti til þeirrar samkeppni,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Í frumvarpinu er lagt upp með þrenn skilyrði til að eiga rétt á 35% endurgreiðslu:
- Lágmarks framleiðslukostnaður: Lagt er til að viðmiðið sé að framleiðslukostnaður sem fellur til við framleiðslu viðkomandi kvikmyndar eða sjónvarpsefnis hér á landi sé að lágmarki 200 milljónir króna.
- Verkefni til lengri tíma: Gerð verður krafa um að framleiðsluverkefni séu til lengri tíma hér á landi þar sem tökudagar á Íslandi eru að lágmarki 30. Heimilt er að telja eftirvinnslu verkefnis á Íslandi í þeirri tölu.
- Fjöldi starfsmanna sem vinna að verkefni. Fjöldi starfsmanna sem vinna beint að verkefninu séu að lágmarki 50. Nær það jafnt til innlendra sem erlendra starfsmanna.
Bandaríska fyrirtækið HBO, sem heldur úti sjónvarpsstöð og streymisveitu, sendi íslenskum stjórnvöldum bréf í haust og lýsti yfir áhuga á því að taka upp heilu verkefnin á Íslandi ef endurgreiðsluhlutfallið yrði hækkaði í 35%, að því er Innherji greindi frá á sínum tíma. Jay Roewe, einn aðstoðarforstjóra HBO skrifaði undir bréfið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra:
„Við vitum að það er mikill áhugi á þessum áformum okkar um lagabreytingu á endurgreiðslunum og við höfum haft málið í algjörum forgangi. Brýnt er að öll viðmið séu skýr og gagnsæ þar sem einn helsti styrkleiki endurgreiðslukerfisins, í alþjóðlegum samanburði, hefur verið einfaldleiki þess og skýrleiki. Það eru gríðarleg tækifæri í að efla kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Þessar breytingar munu skapa fjölmörg ný og spennandi störf og auka útflutningsverðmæti þjóðarbúsins.“