Snjallsjálfsalar, sælkeraverslun sem býður upp á íslenskar veitingar og kræsingar og svokallaðar „grab’n go“ verslanir verða opnaðar á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári.

Í tilkynningu frá Isavia segir að verslanirnar muni koma til með að auka úrval veitinga í flugstöðinni, sérstaklega fyrir þá farþega sem eru á hraðferð um flugvöllinn.

SSP í Noregi, hluti af alþjóðlega fyrirtækinu SSP Group, átti hagkvæmasta tilboðið í útboðið í rekstri á verslununum. Fyrirtækið sérhæfir sig í rekstri veitingastaða á flugvöllum og rekur yfir 2.600 slíka staði víða um heim.

Fyrirtækið hefur meðal annars rekið Jómfrúna og Elda á Keflavíkurflugvelli í samstarfi við íslenskt veitingafólk frá árinu 2022.

„Við hjá SSP höfum átt farsælt samstarf við Keflavíkurflugvöll og erum stolt og ánægð að fá að halda áfram að bjóða íslenskum og erlendum ferðalöngum upp á frábært úrval matar sem er hentugt að grípa með sér í nesti fyrir ferðalagið,“ segir Åste Haukvik, viðskiptaþróunarstjóri SSP á Norðurlöndum.

SSP mun reka sitthvora Grab´n Go verslunina, aðra á 2. hæð í norðurbyggingu og hina á 1. hæð í suðurbyggingu flugvallarins. Einnig mun SSP reka snjallsjálfsala á sjö mismunandi stöðum í flugstöðinni ásamt sælkeraverslun við hliðina á Grab´n Go versluninni í norðurbyggingunni. Stefnt er að því að rekstur hefjist næsta vetur.