Hátt í tvöföld um­fram­eftir­spurn var í fyrstu skulda­bréfaút­gáfu Kviku banka í evrum sem lauk fyrir helgi.

Bankinn sótti 200 milljónir evra til fjögurra ára, jafn­virði tæp­lega 30 milljarða ís­lenskra króna. Bréfin bera 4,5% fasta vexti og voru seld með vaxtaálagi sem jafn­gildir 250 punktum ofan á milli­banka­vexti í evrum.

Eiríkur Magnús Jens­son, fjár­mála­stjóri Kviku, segir að hluti af fjár­mögnuninni verði nýttur til að endur­fjár­magna starf­semi bankans í Bret­landi en sam­kvæmt greiningu Akkurs gæti slík endur­fjár­mögnun aukið hreinar vaxta­tekjur bankans til muna.

Kvika er með starf­semi í Bret­landi í gegnum félagið Ortus, sem er í fullri eigu bankans og sér­hæfir sig í fast­eigna­veðlánum. Lána­bók Ortus nam um 40 milljörðum króna í lok fyrsta árs­fjórðungs.

„Þetta eykur sveigjan­leika okkar hvað Ortus varðar. Við höfum verið með fína fjár­mögnun þar, sem þótti góð á sínum tíma, en nú þegar bankinn er kominn með fleiri val­kosti á skulda­bréfa­markaði þá var mikilvægt að huga að endur­fjár­mögnun,“ segir Eiríkur.

Sam­kvæmt greiningu Akkurs gæti þessi nýja fjár­mögnun lækkað vaxta­kostnað Kviku um 150 til 400 milljónir króna á árs­grund­velli.

Ekki liggja fyrir nákvæm kjör eldri fjár­mögnunar Ortus en Kvika hefur hingað til, fram á þetta ár, gefið út er­lend skulda­bréf með u.þ.b. 4,0% álagi á milli­banka­vexti, aðal­lega í sænskum og norskum krónum.

Ef gert er ráð fyrir að fjár­mögnun Ortus sé á svipuðum kjörum þýðir það 1 til 2 pró­sentu­stiga lækkun sem myndi skila sér í veru­legum sparnaði.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 5.995 kr. á mánuði