Hátt í tvöföld umframeftirspurn var í fyrstu skuldabréfaútgáfu Kviku banka í evrum sem lauk fyrir helgi.
Bankinn sótti 200 milljónir evra til fjögurra ára, jafnvirði tæplega 30 milljarða íslenskra króna. Bréfin bera 4,5% fasta vexti og voru seld með vaxtaálagi sem jafngildir 250 punktum ofan á millibankavexti í evrum.
Eiríkur Magnús Jensson, fjármálastjóri Kviku, segir að hluti af fjármögnuninni verði nýttur til að endurfjármagna starfsemi bankans í Bretlandi en samkvæmt greiningu Akkurs gæti slík endurfjármögnun aukið hreinar vaxtatekjur bankans til muna.
Kvika er með starfsemi í Bretlandi í gegnum félagið Ortus, sem er í fullri eigu bankans og sérhæfir sig í fasteignaveðlánum. Lánabók Ortus nam um 40 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs.
„Þetta eykur sveigjanleika okkar hvað Ortus varðar. Við höfum verið með fína fjármögnun þar, sem þótti góð á sínum tíma, en nú þegar bankinn er kominn með fleiri valkosti á skuldabréfamarkaði þá var mikilvægt að huga að endurfjármögnun,“ segir Eiríkur.
Samkvæmt greiningu Akkurs gæti þessi nýja fjármögnun lækkað vaxtakostnað Kviku um 150 til 400 milljónir króna á ársgrundvelli.
Ekki liggja fyrir nákvæm kjör eldri fjármögnunar Ortus en Kvika hefur hingað til, fram á þetta ár, gefið út erlend skuldabréf með u.þ.b. 4,0% álagi á millibankavexti, aðallega í sænskum og norskum krónum.
Ef gert er ráð fyrir að fjármögnun Ortus sé á svipuðum kjörum þýðir það 1 til 2 prósentustiga lækkun sem myndi skila sér í verulegum sparnaði.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 5.995 kr. á mánuði