Íslenska tæknifyrirtækið Samey Robotics hagnaðist um 102 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 18 milljóna króna hagnað árið 2022. Tekjur félagsins jukust um rúman milljarð króna á milli ára og námu tæplega 1,9 milljörðum króna samanborið við tæplega 800 milljóna króna veltu árið 2022.

Samey Robotics hefur í meira en þrjá áratugi verið leiðandi í sjálfvirknivæðingu íslensks iðnaðar og brautryðjandi í notkun þjarka í sjálfvirkni. Félagið þróar, hannar og framleiðir sjálfvirka róbóta, eða iðnþjarka, fyrir ýmiss konar iðnað, og hefur afhent mörg stór kerfi fyrir laxeldi á Íslandi, Noregi og í Færeyjum.

Á sjötta hundrað verksmiðjur og vinnslur í 25 löndum starfa í dag með kerfum frá félaginu, en lausnir félagsins eru notaðar víða í fiskvinnslum landsins og þar má nefna í hátækni fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík og Brim í Reykjavík.

Höfuðstöðvar Samey Robotics eru í Garðabæ.

Veltan þrefaldast á þremur árum

Sjávarsýn, fjárfestingafélag Bjarna Ármannssonar, keypti helmings hlut í Samey Robotics árið 2021, en Bjarni starfar jafnframt sem stjórnarformaður félagsins. Á móti Bjarna keypti LVG Holding, félag Kristjáns Karls Aðalsteinssonar og Vygandas Srebalius, helmingshlut í félaginu, en Kristján er jafnframt sölu- og markaðsstjóri félagsins.

Nam kaupverðið 538 milljónum króna samkvæmt ársreikningi Sameyjar Holding, móðurfélags Sameyjar Robotics.

Frá því að nýr eigendahópur tók við, hefur velta Samey Robotics þrefaldast, farið úr rúmum 700 milljónum árið 2020, í tæplega 1,9 milljarða á síðasta ári.

Nánar er fjallað um Samey Robotics í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér.