Icelandair og bandaríska flugfélagið JetBlue hafa aukið samstarf sitt um tengingar á milli leiðakerfa félaganna í Evrópu og Norður-Ameríku. Með samstarfinu geta viðskiptavinir keypt flug með tengingum inn í leiðarkerfi beggja félaga á einum miða og innritað farangur alla leið frá upphafsflugvelli. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Hingað til hefur verið boðið upp á sammerkt flug milli New York JFK flugvallar, Boston Logan, Newark flugvallar og Keflavíkurflugvallar. Útvíkkun samstarfsins felur meðal annars í sér að flug Icelandair frá Keflavíkurflugvelli til valinna áfangastaða í Evrópu verður framvegis sammerkt flugfélögunum tveimur. Stefnt er að því að auka samstarfið enn frekar í náinni framtíð.
Áfangastaðirnir sem bætast við nú eru:
- Amsterdam
- Stokkhólmur
- Kaupmannahöfn
- Helsinki
- Osló
- Glasgow
- Manchester
Þessi nýjung er viðbót við samstarf sem hófst árið 2011 og hefur þróast í gegnum tíðina en farþegar Icelandair hafa aðgang að tengiflugi með JetBlue til fjölda áfangastaða í leiðakerfi bandaríska félagsins. Meginbreytingin núna felst í því að viðskiptavinir JetBlue fá aðgang að fleiri ferðamöguleikum til Evrópu um Keflavíkurflugvöll.
Viðskiptavinir njóta einnig samstarfs vildarklúbba flugfélaganna tveggja, en farþegar Icelandair geta safnað vildarpunktum í flugi með JetBlue og öfugt. Unnið er að enn frekari tengingum vildarklúbbanna og von bráðar verður hægt að nýta punkta sem greiðslu fyrir flug á milli flugfélaganna.
Robin Hayes, forstjóri JetBlue:
„Við erum mjög ánægð með að útvíkka samstarfið við Icelandair og geta þannig boðið viðskiptavinum okkar fleiri kosti þegar þeir ferðast áfram til Evrópu um Ísland. Nýlega bættum við London Heathrow og London Gatwick við leiðakerfið okkar. Þetta aukna samstarf við Icelandair eykur enn möguleikana á flugi yfir Atlantshafið og gefur farþegum okkar tækifæri til að tengja eða stoppa á Íslandi á leið sinni til Evrópu.“
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Í ár eru tíu ár frá því við hófum samstarfið við JetBlue og það er ánægjulegt að tilkynna nánara samstarf sem felur í sér ný tækifæri í tengingum á milli leiðakerfa félaganna. Icelandair og JetBlue eru um margt lík félög og getum við því boðið viðskiptavinum okkar sambærilega upplifun alla leið á áfangastað.“