Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands telur of tíð skipti milli stjórnarmanna til að gegna formennsku í stjórnum lífeyrissjóða geta dregið úr skilvirkni stjórnar og vera þannig ekki til þess fallin að þjóna hagsmunum sjóðfélaga eins og best verður á kosið.

Þetta kemur fram í dreifibréfi Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til stjórna íslenskra lífeyrissjóða. Í bréfinu er bent á að í sumum lífeyrissjóðum sé sá háttur hafður á að fulltrúar atvinnurekenda og launamanna hafi á hendi formennsku og varaformennsku til skiptis, ýmist til eins eða tveggja ára í senn. Í ljósi ofangreinds mats eftirlitsins um að fyrirkomulagið geti dregið úr skilvirkni stjórnar telur það tilefni til að beina því til umræddra lífeyrissjóða að endurskoða þetta fyrirkomulag með það að leiðarljósi að hafa lengri samfellu í störfum stjórnarformanns, t.d. að lágmarki tvö ár.

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, þar sem fulltrúar atvinnurekenda og launamanna skipta árlega á milli sín formennsku og varaformennsku, kveðst hafa mjög góða reynslu af því fyrirkomulagi.

„Hjá Birtu hefur sú hefð myndast að formaður og varaformaður vinna vel saman og veita mér sameiginlega gott aðhald og eftirlit á milli stjórnarfunda. Í mörgum tilfellum hefur þetta gengið á víxl á milli sömu einstaklinga og þannig eru á hverjum tíma bæði formaður og varaformaður vel til þess bærir að stýra fundi og starfinu. Samfellan felst þá ekkert síður í því að jafnvel þótt formaður verði varaformaður og svo aftur formaður hefur viðkomandi einstaklingur safnað upp þriggja ára reynslu af formennsku.“

Að hans mati hefur sá háttur sem hafður er á hjá Birtu aukið skilvirkni í starfinu frekar en hitt. „Mér finnst umræðan á milli stjórnarfunda dýpka við að mér beri að eiga samráð við formann og varaformann sameiginlega.“

Ólafur reiknar með að stjórn Birtu muni taka dreifibréfið til umfjöllunar eftir sumarfrí og ræða það eins og önnur erindi sem berast frá Seðlabanka Íslands. „Lífeyrissjóðir eru einingar tengdar almannahagsmunum og við höfum gott af því að taka reglulega opna umræðu um stjórnarhætti og stjórnarstarfið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.