Auðkenni, útgefandi rafrænna persónuskilríkja, hagnaðist um 51 milljón króna á síðasta ári, en til samanburðar nam hagnaður félagsins 182 milljónum króna árið 2022. Rekstrartekjur námu 695 milljónum króna og hækkuðu um 88 milljónir króna, eða um 14%, frá árinu áður.
Auðkenni, útgefandi rafrænna persónuskilríkja, hagnaðist um 51 milljón króna á síðasta ári, en til samanburðar nam hagnaður félagsins 182 milljónum króna árið 2022. Rekstrartekjur námu 695 milljónum króna og hækkuðu um 88 milljónir króna, eða um 14%, frá árinu áður.
Rekstrargjöld félagsins jukust úr 440 milljónum króna árið 2022 í 690 milljónir árið 2023. Laun og launatengd gjöld jukust um 64%, úr 189 milljónum í 310 milljónir. Ársverk voru 16,8 árið 2023 en voru 10,6 árið 2022. Ársverkum fjölgaði því um 58% á milli ára. Þá jókst annar rekstrarkostnaður um 55% á milli ára, úr 232 milljónum árið 2022 í 360 milljónir árið 2023. Fyrir vikið lækkaði rekstrarhagnaður fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld úr 168 milljónum árið 2022 í 5 milljónir í fyrra.
Matsbreyting markaðsverbréfa var jákvæð um 40 milljónir og stóð að stóru leyti undir hagnaði síðasta árs. Í ársreikningi kemur fram að umrædd markaðsverðbréf séu lausafjársjóðir hjá fjármálastofnun.
Auðkenni er í eigu ríkissjóðs sem festi kaup á félaginu fyrir um 948 milljónir sumarið 2021. Kaupverðið nam bókfærðu hlutafé félagsins sem var um 80% af því fjármagni sem eigendur félagsins hafa lagt til félagsins í formi hlutafjár til þess að þróa lausnina. Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki voru stærstu eigendur félagsins með um fjórðungshlut hver fyrir sig og Síminn átti 16%. Við kaupin var bent á að ríkið gæfi þegar út almenn skilríki, s.s. ökuskírteini og vegabréf, og því eðlilegt að það annaðist einnig útgáfu rafrænna skilríkja.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.