Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fór af stað með fjárfestingarátak í vor þar sem auglýst var eftir umsóknum frá sprotafyrirtækjum sem eru að stíga sín fyrstu skref. Markmið átaksins er að fjárfesta fyrir um 200 milljónir króna í 10 til 15 nýjum félögum en til samanburðar hefur sjóðurinn komið að 1 til 2 nýjum félögum á ári og eru 25 félög í eignasafni sjóðsins í dag.

Verkefnið er afrakstur stefnumótunarvinnu á síðasta ári en ákveðið var að auka aðkomu Nýsköpunarsjóðs að félögum á hugmyndastigi (e. pre-seed). Stefnt er að því að átakið verði fastur liður í starfseminni.

Lagt er upp með að Nýsköpunarsjóður fjárfesti í einstökum félögum fyrir 5-25 milljónir króna að því gefnu að félögin safni a.m.k. öðru eins frá einkafjárfestum. Ekki er skilyrði um að sú fjárfesting liggi fyrir heldur fá hin útnefndu félög ákveðinn tíma til að safna fjármagni frá englafjárfestum og þar kann vilyrði um fjármagn frá Nýsköpunarsjóði að hjálpa til.

Umsóknarfresti lauk 31. maí síðastliðinn og alls bárust 73 umsóknir um fjárfestingu þar sem sótt var um samtals 1.454 milljónir króna. Verið er að vinna úr umsóknum og stefnt er að því að kynna niðurstöðurnar um miðjan ágúst. Örn Viðar Skúlason, fjárfestingarstjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, segir að viðtökurnar hafi farið töluvert fram úr væntingum sjóðsins.

„Þetta sýnir svart á hvítu hvað það er mikil þörf á að styðja við sprotafélög sem eru komin stutt á veg. Helsta fjármögnun margra félaga sem eru að stíga sín fyrstu skref er í formi styrkja. Þó að styrkir séu af hinu góða þá setur bein fjárfesting í ungum félögum hlutina í annað samhengi, ekki síst vegna áherslna á góða stjórnarhætti og að gera þau að góðum fjárfestingarkostum,“ segir Örn Viðar.

„Við lítum svo á að við hjálpum teymum að komast af eldhúsborðinu heima yfir í fjárfestaumhverfið. Eitt helsta markmiðið okkar með þessu átaki er að flýta ferli þessara félaga. Mörg þeirra myndu eflaust hökta áfram vegna áhuga og krafts stofnenda þeirra en að fá fjármögnun snemma inn er líklegt til þess að hjálpa þeim að hraða sinni vegferð og verða fyrr tilbúin fyrir aðkomu annarra fjárfesta.“

Hingað til hafa þau félög sem Nýsköpunarsjóður fjárfestir í oftast verið komin með meiri vissu í kringum starfsemi sína, en í átakinu er horft til félaga sem eru jafnvel á hugmyndastigi og áhættan mun meiri.

Frá því að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hóf starfsemi árið 1998 hefur hann komið að fjármögnun yfir 200 sprotafyrirtækja fyrir ríflega 25 milljarða á núverandi verðlagi.

Fréttin er hluti af lengra viðtali við Örn Viðar í Viðskiptablaði vikunnar.