Stjórn Eikar leggur til að 2.540 milljónir króna verði greiddar í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2023 að teknu tilliti til arðgreiðslustefnu félagsins og með hliðsjón af sögulega lágu veðsetningarhlutfalli sem nam 54,8% í fyrra.
Í ársuppgjöri Eikar segist stjórn félagsins sjá tækifæri með fjárfestingu í þróun til að auka arðgreiðslugetu félagsins.
„Félagið sér mikil tækifæri í eignasafni sínu og með fjárfestingu í þróun þess getur félagið leyst úr læðingi umtalsverð verðmæti fyrir hluthafa, bæði í formi hærri leigutekna og innlausnar á virði þróunareigna.“
Sýn stjórnar Eikar er sú að reglulegar greiðslur til hluthafa nemi 50% af handbæru fé frá rekstri ársins ásamt því að félagið greiði út virðisaukningu af söluverði þróunareigna, að því að gefnu að arðgreiðsla raski ekki 60% langtímamarkmiði um veðhlutflall (nettó vaxtaberandi skuldir / virði fasteigna, byggingarheimilda og lóða).
Framtíðarsýn um aukna arðsemi
Í nýrri ársskýrslu Eikar er umfjöllun um framtíðarsýn félagsins, sem skilgreinir sig sem arðgreiðslufélag. Félagið segist sjá fyrir sér að ná fram aukinni arðsemi og þar með svigrúmi til aukinna arðgreiðslna á fjóra mismunandi vegu.
Ein leiðin snýr að því að hækka leigutekjur. Félagið segir að áskoranir verði áfram í útleigu í ár þar sem félagið hafi fengið og muni fá stórar eignir til baka eftir langtímaleigu. Stjórnendur Eikar segja eignasafn félagsins hins vegar sterkt og vænta því góðum árangri við útleigu.
„Mikil tækifæri eru hjá félaginu til myndarlegs raunvaxtar leigutekna á næstu árum, bæði með hækkun á virðisútleiguhlutfalli og með því að þróunareignir verði tekjuberandi.“
Sértækar arðgreiðslur allt að milljarður á ári
Félagið horfir til þess að auka áherslu á þróunareignir. Stjórn Eikar sér fyrir sér að arðgreiðsla hvers árs taki tillit til þeirrar mögulegu virðisaukningar sem verður til við sölu þróunarverkefna ársins á undan.
Stjórnin sér fyrir sér að „sértækar arðgreiðslur“ í tengslum við sölu þróunareigna gætu numið frá 500 milljónum til 1.000 milljónum króna á ári að meðaltali til lengri tíma. Fyrsta slíka arðgreiðslan kæmi til árið 2025 vegna innlausnar á virði þróunareigna í ár. Töluverðar sveiflur á milli ára gætu orðið á þessum sértæku arðgreiðslum.
Í ársskýrslunni fylgir með dæmi um fasteign sem seld væri til þriðja aðila. Við útreikning á sértæku arðgreiðslunni reiknast söluhagnaður fasteignar að fullu, virði byggingaréttar að fullu og 40% af bókfærðu virði fasteignarinnar, sem er áætlaður eiginfjárhluti fasteignarinnar. Skuldir yrðu annað hvort greiddar upp að færðar á önnur veð.
Högnuðust um 7,3 milljarða í fyrra
Eik fasteignafélag hagnaðist um 7,3 milljarða króna eftir skatta á árinu 2023 samanborið við 8 milljarða árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins jókst milli ára en matsbreyting fjárfestingareigna var minni en árið áður.
Leigutekjur Eikar jukust um 11% milli ára og námu 9,5 milljörðum króna. Rekstrartekjur félagsins námu í heild sinni 11,2 milljörðum. Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 spáir félagið því að rekstrartekjur verði á bilinu 11.250-11.710 milljónir króna á föstu verðlagi miðað við vísitölu neysluverðs í janúar 2024.
Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir (EBITDA) nam 7.475 milljónum og jókst um rúm 13% á milli ára. Eik áætlar að EBITDA þessa árs verði á bilinu 7.250-7.560 milljónir króna.
Matsbreyting fjárfestingareigna á síðasta ári nam rúmum 7,5 milljörðum en þessi liður nam 10,4 milljörðum árið áður. Bókfært virði fjárfestingareigna Eikar nam 132 milljörðum í árslok 2023.