Það gefur augaleið að þróun vaxtastigs hefur mikið að segja um þróun fasteignaverðs. Pálmar Gíslason, greinandi á fasteignamarkaði, bendir þó á að áframhaldandi lækkun stýrivaxta hafi nær eingöngu áhrif á óverðtryggð lán, sem fáir hafa efni á því að taka um þessar mundir.
Þannig er einungis 1% einstaklinga sem hefur kost á því að kaupa meðalíbúð á höfuðborgarsvæðinu með óverðtryggðri fjármögnun, samkvæmt greiningu Pálmars.
Þá kemur fram að aðeins 42% allra hjóna á Íslandi geti staðist lántökuskilyrði Seðlabanka Íslands, sem setur kvaðir á hámarks greiðslubyrði, lágmarks vexti og lánstíma við útreikning á greiðslubyrði húsnæðislána, fyrir verðtryggt húsnæðislán.
„Verðtryggð lán verða áfram vinsæl og mun ásókn í slíkt lánaform aukast enn meira þegar húsnæðislán að virði 170 milljarða detta af föstum óverðtryggðum vöxtum á fyrri árshelmingi og tæplega 100 milljarðar á seinni helmingi ársins.“


Fáir geta nýtt sér hlutdeildarlán
Eins og staðan er í dag getur það því reynst fyrstu kaupendum erfitt að komast inn á fasteignamarkað. Þeim stendur þó til boða að sækja um hlutdeildarlán að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, og ef fjármagn er til staðar hjá HMS fyrir lánunum.
Pálmar bendir þó á að hægt og rólega sé að fækka í þeim hópi sem getur nýtt sér þessa leið. Þar spili vaxtaþróun verðtryggðra húsnæðisvaxta lykilhlutverk.
„Ef við skoðum skilyrði hlutdeildarlána og gerum ráð fyrir 4% verðtryggðum vöxtum fyrir 70% fjármögnun og 11% óverðtryggðum fyrir 10% viðbótarfjármögnun, þá er nær enginn hópur getur sótt um 30% hlutdeildarlán. Fyrir 20% hlutdeildarlán er staðan örlítið skárri, en fer hratt versnandi og þá sérstaklega ef tekið er tillit til þess að sumir lántakendur eru hættir að lána verðtryggð jafngreiðslulán.“
Hann bætir við að að auki séu hlutdeildarlán einungis í boði fyrir ákveðnar íbúðir, og sem dæmi séu einungis sjö auglýstar hlutdeildarlánsíbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem uppfylli skilyrði á fermetrabilinu 30-60 m2.
„Því má segja að hlutdeildarlán séu í dag bara í boði fyrir hjón eða fólk í sambúð, sem eru alveg við hámarks tekjuviðmið hlutdeildarlána,“ bætir Pálmar við.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.