Tæplega 55% þátttakenda í markaðskönnun Viðskiptablaðsins telja að peningastefnunefnd Seðlabankans muni taka ákvörðun um að lækka vexti um 25 punkta á vaxtaákvörðunarfundi bankans þann 19. mars í næstu viku.

Könnunin var send á 271 markaðs- og greiningaraðila á fimmtudaginn í þar síðustu viku og bárust 106 svör sem jafngildir 39% svarhlutfalli.

Markaðsaðilar voru þá spurðir út í möguleg áhrif þróunar alþjóðamála á vaxtalækkunarferlið hér á landi á árinu, nánar tiltekið hvort hún muni hraða eða hægja á ferlinu, eða hvort áhrifin verði engin, og var þátttakendum gefinn kostur á að rökstyðja svar sitt skriflega.

Rúmlega 61,5% svarenda telja að þróun alþjóðamála, þ.á.m. mögulegt tollastríð, muni hægja á vaxtalækkunum, 23,1% telja að þróunin muni hraða á ferlinu á meðan 15,4% sjá ekki fram á nein áhrif af þróun alþjóðamála á vaxtalækkunarferli Seðlabankans.

Þeir sem telja að þróun alþjóðamála muni hægja á vaxtalækkunarferlinu rökstyðja flestir svar sitt með þeim hætti að hætta sé á að mögulegt tollastríð muni leiða til þrálátari verðbólgu í helstu viðskiptalöndum sem myndi síðan smitast hingað til lands með innflutningi.

Vegna þeirrar óvissu gæti peningastefnunefnd kosið að taka varfærin skref í átt að frekari vaxtalækkunum og bíða með að minnka raunaðhaldið þar til dregur úr óvissu í heimshagkerfinu.

Áhrif tollastríðsins „alls ekki kunn“

Þeir sem telja að þróun alþjóðamála gæti hraðað vaxtalækkunarferlinu telja t.d. að helstu viðskiptalönd Íslands sem lenda í tollahækkunum muni reyna að selja vörur sínar inn á aðra markaði með tilheyrandi lækkun á verðlagi. Þannig færi verðbólga niður til skamms tíma og hagvöxtur og vextir sömuleiðis. Einnig nefndi einn þátttakandi að verðbólga sem kæmi til vegna tolla væri ekki hefðbundin peningaleg verðbólga. Því væri óæskilegt að hækka vexti á slíka verðbólgu. Þá nefndi annar að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ætti ekki að vera passasamari vegna þróunar alþjóðamála. Áhrif tollastríðsins séu nefnilega „alls ekki kunn“.

Eins og áður segir telja rúm 15% svarenda að áhrif þróunar alþjóðamála á vaxtalækkunarferlið verði engin. Einn þátttakenda tekur sérstaklega fram að hann hefði svarað spurningunni „óljóst“ ef það hefði verið svarvalmöguleiki. Annar segir að það hvort Bandaríkin haldi tollaáformum sínum til streitu ætti ekki að hafa mikil áhrif á Seðlabankann til skemmri eða lengri tíma. Sá sami spyr á móti hvort það skipti nokkru máli hvort íslenskir stýrivextir séu t.d. 8% eða 7% í þeirri óvissu sem nú ríki í alþjóðamálum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.