Skuldir byggingageirans við íslensku bankanna stóðu í tæpum 250 milljörðum króna í lok júlí og hafa aukist um 68 milljarða á sl. 12 mánuðum eða um nærri 28% að raunvirði.
Að mati Seðlabanka Íslands er hægari sala eigan að auka skuldir fyrirtækja í byggingarstarfsemi þar sem afleiðingin er sú að framkvæmdalán eru að jafnaði greidd hægar niður en ella.
„Auknar skuldir og hærra vaxtastig leiða til aukins fjármagnskostnaðar í greininni. Vegnir óverðtryggðir meðalvextir útlána KMB til félaga í byggingariðnaði voru rúmlega 10% í lok júlí sl. og höfðu hækkað um rúmlega tvær prósentur frá ársbyrjun. Nærri 90% af skuldum félaganna eru óverðtryggðar með breytilega vexti og miðlast hert aðhald peningastefnunnar því fljótt inn í útlán byggingageirans,“ segir í Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands.
„Frekar merki um að það sé að hægjast á ferlinu“
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir að vaxandi skuldir byggingarfyrirtækja gætu verið hættumerki um að það sé að hægjast á söluferlinu.
„Það er núna merki um það sem við höfum verið að sjá að fjöldi fullbúinna íbúða sem eru í sölu hefur fjölgað. Meðalsölutími íbúða hefur lengst talsvert sem gerir það að verkum að fjármagn byggingarfyrirtækja er lengur bundið í íbúðinni. Það er skýringin á skuldasöfnuninni að hluta a.m.k. Það eru líka vísbendingar t.d. í nýjustu talningu HMS á íbúðum í byggingu, um að íbúðir séu að stoppa í byggingarferlinu sem gæti líka skýrt þessa þróun,“ segir Ingólfur.
„Sumir hafa sagt að í aukningu lána til greinarinnar séu merki um meiri umsvif en þetta eru líklegast frekar merki um að það sé að hægjast á ferlinu frá því að hafist er handa við að byggja íbúð þar til hún er seld,“ segir Ingólfur.
Á allra síðustu mánuðunum hafa verðtryggð útlán til byggingarfyrirtækja aukist samkvæmt Seðlabankanum og enn sem komið er hefur þyngri fjármagnskostnaður ekki skilað sé í auknum vanskilum félaga í byggingarstarfsemi.