Skuldir bygginga­geirans við ís­lensku bankanna stóðu í tæpum 250 milljörðum króna í lok júlí og hafa aukist um 68 milljarða á sl. 12 mánuðum eða um nærri 28% að raun­virði.

Að mati Seðla­banka Ís­lands er hægari sala eigan að auka skuldir fyrir­tækja í byggingar­starf­semi þar sem af­leiðingin er sú að fram­kvæmda­lán eru að jafnaði greidd hægar niður en ella.

„Auknar skuldir og hærra vaxta­stig leiða til aukins fjár­magns­kostnaðar í greininni. Vegnir ó­verð­tryggðir meðal­vextir út­lána KMB til fé­laga í byggingar­iðnaði voru rúm­lega 10% í lok júlí sl. og höfðu hækkað um rúm­lega tvær prósentur frá árs­byrjun. Nærri 90% af skuldum fé­laganna eru ó­verð­tryggðar með breyti­lega vexti og miðlast hert að­hald peninga­stefnunnar því fljótt inn í út­lán bygginga­geirans,“ segir í Fjár­mála­stöðug­leika Seðla­banka Ís­lands.

„Frekar merki um að það sé að hægjast á ferlinu“

Ingólfur Bender, aðal­hag­fræðingur Sam­taka iðnaðarins, segir að vaxandi skuldir byggingar­fyrir­tækja gætu verið hættu­merki um að það sé að hægjast á söluferlinu.

„Það er núna merki um það sem við höfum verið að sjá að fjöldi full­búinna í­búða sem eru í sölu hefur fjölgað. Meðal­sölu­tími í­búða hefur lengst tals­vert sem gerir það að verkum að fjár­magn byggingar­fyrir­tækja er lengur bundið í í­búðinni. Það er skýringin á skulda­söfnuninni að hluta a.m.k. Það eru líka vís­bendingar t.d. í nýjustu talningu HMS á í­búðum í byggingu, um að í­búðir séu að stoppa í byggingar­ferlinu sem gæti líka skýrt þessa þróun,“ segir Ingólfur.

„Sumir hafa sagt að í aukningu lána til greinarinnar séu merki um meiri um­svif en þetta eru lík­legast frekar merki um að það sé að hægjast á ferlinu frá því að hafist er handa við að byggja íbúð þar til hún er seld,“ segir Ingólfur.

Á allra síðustu mánuðunum hafa verð­tryggð út­lán til byggingar­fyrir­tækja aukist sam­kvæmt Seðla­bankanum og enn sem komið er hefur þyngri fjár­magns­kostnaður ekki skilað sé í auknum van­skilum fé­laga í byggingar­starf­semi.