Verðbólga á evrusvæðinu mældist 2,5% í janúar og jókst um 0,1 prósentustig frá fyrri mánuði þegar hún mældist 2,4%, samkvæmt nýbirtum tölum Eurostat.
Verðbólgutölurnar voru yfir spám hagfræðinga í könnun Reuters sem höfðu gert ráð fyrir að verðbólgan yrði óbreytt í 2,4%. Hækkunin milli mánaða er einkum rakin til hækkandi orkuverðs.
Í umfjöllun Reuters segir að þrátt fyrir að verðbólga hafi aukist milli mánaða sé enn talið að Seðlabanki Evrópu, sem lækkaði vexti um 0,25 prósentu í síðustu viku, hafi svigrúm til að lækka vexti frekar.
Þannig hafi undirliggjandi verðbólga haldist óbreytt í 2,7% og þjónustuverðbólga dróst saman milli mánaða.