Core heildsala, sem selur m.a. koffíndrykkinn Nocco, hagnaðist um 275 milljónir króna í fyrra. Hagnaður jókst um 101 milljón frá fyrra ári. Rekstrartekjur heildsölunnar námu 2,7 milljörðum og jukust um 14% á milli ára.

Í ársreikningi segir að sala á nýjum vörumerkjum félagsins hafi gengið vel sem ýti enn fremur undir aukna sölu ársins. Reiknað sé með því að starfsemi félagsins muni ekki breytast verulega að umfangi á næstu árum.

Eignir námu tæplega 1,1 milljarði króna og eigið fé 687 milljónum í lok síðasta árs. Skuldir við lánastofnanir lækkuðu úr 126 milljónum niður í 17 milljónir á milli áranna 2022 og 2023. Eiginfjárhlutfall var 64,5% í lok síðasta árs, samanborið við 54,2% í árslok 2022.

Ársverk voru 22 á síðasta ári og fjölgaði um 4 frá fyrra ári. Laun og annar starfsmannakostnaður nam 249 milljónum og jókst um 43 milljónir á milli áranna 2022 og 2023.

75 milljóna arður

AK Invest er móðurfélag Core heildsölu en umrætt félag hagnaðist um 284 milljónir í fyrra og velti 2,7 milljörðum og stóð heildsalan nær alfarið undir hagnaði og veltu. Eignir félagsins námu 1,3 milljörðum í lok síðasta árs og eigið fé 925 milljónum. Félagið á markaðsverðbréfasafn sem metið var á alls 323 milljónir króna í lok síðasta árs.

Í ársreikiningi félagsins segir að það hafi tekist á við áskoranir tengdar erlendum og innlendum verðhækkunum sem margar hverjar séu afleiðing erfiðara efnahagsástands í heiminum.

AK Invest er í jafnri eigu hjónanna Ársæls Þórs Bjarnasonar og Kamillu Sveinsdóttur. Stjórn félagsins leggur til að 75 milljónir verði greiddar út í arð til hlutahafa á yfirstandandi ári vegna reksturs síðasta árs en 50 milljónir voru greiddar í arð til hluthafa á síðasta ári.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.