Eins og Viðskiptablaðið sagði frá áðan leggur nýr stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri Grænna áherslu á loftslags- og umhverfismál, og heilbrigðis- og öldrunarmál, þar sem þjóðin sé að eldast. Auk þess snúist sáttmálinn um hvernig íslenskt samfélag geti mætt tæknibreytingum þannig að þær breytingar nýtist öllum landsmönnum til góðs.
Í frétt Vísis er kafað ofan í meginþætti sáttmálans. Segir miðillinn að miklum útbótum sé lofað í heilbrigðismálum. Auka eigi einkarekstur í málaflokknum, auk þess sem draga eigi úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Þá verði skipuð fagleg stjórn yfir Landspítala að norrænni fyrirmynd.
Einnig megi finna eldri markmið um orkuskipti og kolefnishlutleysi í sáttmálanum, auk markmiðs um að auka traust almennings á mikilvægi tjáningarfrelsis.
Er stefnt á að efla heilbrigðiskerfið með þeim hætti að Sjúkratryggingar Íslands verði efldar sem kaupandi og greiðandi kostnaðar fyrir hönd ríkisins. Aukin verði kaup frá einkaaðilum og þannig megi létta álagi af opinbera heilbrigðiskerfinu.
Eldra fólki verður gert auðveldara að búa lengur inni á eigin heimilum, auk þess sem eldra fólki verði gert kleift að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Þá á einnig að liðka fyrir þátttöku og endurkomu einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkað, þannig þau hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku.
Einnig stendur til að breyta örorkulífeyriskerfinu og einfalda það, m.a. með að draga úr tekjutengingum og gera það skilvirkara.
Ný mannréttindastofnun
Mannréttindastofnun verður stofnuð og verður utanumhald um mannréttindamál hlutverk nýju stofnunarinnar.
Auk ofangreinds nefnir frétt Vísis að stefnt sé á uppbyggingu þjóðarleikvanga og inniíþróttahalla, loftslagsváin verði leyst með tækni og að svo virðist sem að fallið sé frá hugmyndum Vinstri Grænna um hálendisþjóðgarð.
Áhugasamir geta glöggvað sig nánar á innihaldi sáttmálans í frétt Vísis um málið.