Þekkingarfyrirtækið Arctic Trucks International ehf. hagnaðist um 83 milljónir á árinu 2023 sem er næstum tvöföldun á milli ára.
Eigið fé félagsins var 339 milljónir króna að meðtöldu hlutafé að fjárhæð 89 milljónir króna.
Þetta kemur fram í ársreikningi sem hefur að geyma samstæðureikning Arctic Trucks International og dótturfélaga þess, Arctic Trucks Polar og Arctic Trucks UK Limited.
Starfsemi félagsins felst í nýsköpun og þróun breytinga á jeppum.
Félagið rekur dótturfélag í Bretlandi en hefur auk þess gert sérleyfissamninga við Arctic Trucks í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Íslandi, Póllandi, Belgíu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Suður-Afríku og Norður-Ameríku.
Dótturfélagið Arctic Trucks Polar annast leiðangursþjónustu fyrir vísindastarf og ferðaþjónustu á Suðurskautinu, í Kanada og á Grænlandi.
Velta á árinu nam rúmum milljarði króna og jókst um 314 milljónir milli ára, eða um 46%.
Frumtak II á 44% hlut, Emil Grímsson stofnandi félagsins á 31,1%, Bering ehf. 12,1%, Dalavesta 6% og Smáraberg ehf. 3,6%. Aðrir hluthafar eiga 2,8%.
