Festi, móðurfélag Krónunnar, N1, Elko og Lyfju, hagnaðist um 279 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi. Smásölufyrirtækið birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Hagnaður félagsins jókst um 38% frá sama tímabili í fyrra en þess ber þó að geta að Lyfja kom ekki inn í samstæðuna fyrr en frá júlí 2024. Aukning hagnaðar án áhrifa Lyfju nam 23%.
Vörusala Festi nam 37,8 milljörðum króna sem er aukning um 17,3% milli ára en hækkaði um 3,0% án áhrifa Lyfju.
Framlegðarstig nam 24,4% og hækkar um 2,6 prósentustig fyrsta ársfjórðungi 2024 en lækkar um 0,1 prósentustig frá fjórða ársfjórðungi 2024.
Rekstrarhagnaður Festi fyrir afskriftir (EBITDA) nam tæplega 2,5 milljörðum króna og jókst um 31,2% milli ára, eða 13,1% án áhrifa Lyfju. EBITDA spá félagsins fyrir árið 2025 er óbreytt og nemur 14,4–14,8 milljörðum króna.
Meðal þess sem kemur fram í uppgjörstilkynningunni er að Yrkir, fasteignafélag Festi, kláraði kaup á Hvaleyrarbraut 3 í Hafnarfirði í apríl. Umrædd fasteign hýsir m.a. verslun Krónunnar. Kaupin eru sögð hluti af stefnu félagsins um að eiga lykilstaðsetningar til framtíðar með möguleika á frekari þróun í takt við skipulag bæjarins.
„Rekstur fyrsta ársfjórðungs gekk samkvæmt áætlun. Reksturinn er stöðugur og vöxturinn í takt við væntingar. Fjárhagur félagsins er sterkur og hugur stjórnenda og starfsfólks er samstilltur á tækifærin sem felast í öflugri samstæðu og útvíkkun þjónustu hennar og vöruúrvali,“ segir Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi
„Sú óvissa sem skapaðist á mörkuðum í apríl með stefnubreytingum og boðun tollahækkana nýs forseta Bandaríkjanna hefur haft töluverð áhrif á heimsmarkaðsverð olíu og gjaldeyrismarkað sem sveiflast dag frá degi. Hvort og þá hver áhrif þessa verða á ferðaþjónustu eða aðrar atvinnugreinar í landinu er óljós enn sem komið er.
Framundan eru mikilvægir sumarmánuðir og munum við nú sem endranær fylgjast vel með og spila vel úr þeim spilum sem við höfum á hendi. Með sterkum stoðum, tæknilegum innviðum og ólíkum rekstrareiningum sem saman mynda heild af framboði nauðsynjavara- og þjónustu um land allt þá eru horfurnar góðar fyrir árið í heild.“