Sláturfélag Suðurlands, SS, skilaði 613 milljóna króna hagnaði eftir skatta á fyrri árshelmingi, samanborið við 532 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra samkvæmt nýbirtu uppgjöri.

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 9.262 milljónir króna á fyrri árshelmingi og jukust um 3%, eða um 261 milljón, milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á fyrstu sex mánuðum ársins jókst úr 1.068 milljónum í 1.103 milljónir milli ára.

Eignir SS-samstæðunnar námu 14,3 milljörðum króna í lok júní samanborið við 13,8 milljarða í lok síðasta árs. Eigið fé félagsins var um 7,9 milljarðar og eiginfjárhlutfallið var um 56%.

Félagið fjárfesti í varanlegum rekstrarfjármunum á fyrri árshelmingi fyrir 321 milljón en 245 milljónir á sama tímabili árið áður. SS fjárfesti í fasteignum fyrir 44 milljónir og vélbúnaði og bifreiðum fyrir 277 milljónir.