Securitas hagnaðist um 439 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 288 milljónir árið 2022. Afkoma ársins var nýtt til áframhaldandi fjárfestinga í innviðum félagsins auk niðurgreiðslu skulda, að því er kemur fram í ársreikningi félagsins.
Í skýrslu stjórnar segir að vöxtur hafi verið á öllum helstu þjónustuþáttum félagsins. Verkefni í öryggistengdri þjónustu hafi verið stöðug, sala á tæknibúnaði hafi áfram verið sterk og uppsetning á snjallmælum, tengt samningi við Veitur ohf., náði góðum takti á árinu.
„Áhrif hárrar verðbólgu og almennra launahækkana sem samið var um á vinnumarkaði höfðu neikvæð áhrif á rekstur ársins. Hjá stjórnendum var áfram lögð mikil áhersla á lækkun alls rekstrarkostnaðar með ýmsum aðgerðum.“
Þá hafi rekstur dótturfélagsins Geymslna ehf. verið sterkur. Tekjur Geymslna jukust um 11,5% milli ára og námu 740 milljónum og félagið hagnaðist um 148 milljónir.
Securitas-samstæðan fjárfesti fyrir 396 milljónir króna á síðasta ári og lækkuðu lán samstæðunnar um 417 milljónum króna.
Eignir Securitas voru bókfærðar á 5,8 milljarða króna í árslok 2023. Skuldir námu 3,5 milljörðum eigið fé var um 2,3 milljarðar.
Vari eignarhaldsfélag eignaðist í vor allt hlutafé í Securitas með kaupum á 40% hlut Eddu framtakssjóðs í Securitas. Vari er í 95% eigu Stekks fjárfestingarfélags sem fór áður með 54,3% beinan hlut í Securitas.