Frá og með 10. júní hefur gengi Bandaríkjadals styrkst um 12% gagnvart íslensku krónunni. Gengi dalsins hefur ekki verið hærra gagnvart íslenskri krónu síðan í fjármálahruninu 2008.
Á sama tíma og innflutningur verður dýrari með veikingu krónunnar hagnast útflutningsgreinarnar á veikari krónu. Diljá Matthíasardóttir, hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að styrking Bandaríkjadals gagnvart íslensku krónunni geti aukið kortaveltu bandarískra ferðamanna, að öðru óbreyttu.
„Styrking Bandaríkjadals gagnvart íslensku krónunni gerir það að verkum að hagstæðara er fyrir ferðamenn frá Bandaríkjunum að ferðast hingað. Kortavelta erlendra ferðamanna getur þannig aukist ef áhrifin verða til þess að bandarískir ferðamenn eyða meiru, að öðru óbreyttu. Hafa verður í huga að hér eru náttúrulega margir þættir sem hafa áhrif, efnahagsástandið í Bandaríkjunum hefur farið versnandi. Ef bandarískir ferðamenn finna sig með aukinn kaupmátt hérlendis má ætla að þeir eyði meiru sem skilar sér með jákvæðum hætti til íslenskra ferðaþjónustuaðila.“

Samkvæmt farþegatölum Hagstofu Íslands í september má sjá að bandarískum ferðamönnum er að fjölga samanborið við sama mánuð árið 2019.
„Höfðatalning segir vitaskuld ekki alla söguna um tekjuöflun ferðaþjónustunnar en kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis hefur aðeins einu sinni mælst hærri í septembermánuði, að raunvirði, frá upphafi mælinga, samkvæmt Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar voru bandarískir ferðamenn ábyrgir fyrir um 38% af allri erlendri kortaveltu hérlendis þann mánuðinn,“ segir Diljá.
Hún bætir þó við að veikari króna gagnvart helstu viðskiptamyntum hjálpi ekki gegn verðbólgu og því séu áhrifin af gengisveikingunni tvíþætt á hagkerfið.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.