Í júní voru 2.502 íbúðir í byggingu í Reykjavíkurborg, samkvæmt nýjustu talningu HMS á íbúðum í byggingu. Það samsvarar tæplega 10% aukningu frá því í mars síðastliðnum þegar 2.283 íbúðir voru í byggingu.

Meirihluti íbúðanna eru á fyrri framvindustigum en um 60% þeirra eru ekki orðnar fokheldar, að því er kemur fram í tilkynningu á vef HMS.

Í júní voru 2.502 íbúðir í byggingu í Reykjavíkurborg, samkvæmt nýjustu talningu HMS á íbúðum í byggingu. Það samsvarar tæplega 10% aukningu frá því í mars síðastliðnum þegar 2.283 íbúðir voru í byggingu.

Meirihluti íbúðanna eru á fyrri framvindustigum en um 60% þeirra eru ekki orðnar fokheldar, að því er kemur fram í tilkynningu á vef HMS.

Frá því í mars er búið að hefja framkvæmdir á 429 íbúðum í Reykjavíkurborg. Meðal stærri verkefna er uppbygging við Eirhöfða 1, þar sem 139 íbúðir eru í byggingu, og við Gjúkabryggju 10-14, þar sem 103 íbúðir eru í byggingu.

Í póstnúmeri 105 eru flestar íbúðir í byggingu eða 571 talsins og má þar helst nefna uppbyggingu á Orkureitnum og Heklureitnum.

Fjöldi íbúða í byggingu í Reykjavíkurborg samkvæmt mælingum HMS. Mynd tekin frá heimasíðu HMS.

Þrjú sveitarfélög uppfylltu íbúðaþörf síðasta árs

Á síðasta ári var áætluð þörf fyrir 2.562 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt húsnæðisáætlunum sveitarfélaganna. Aðeins 2.069 íbúðir voru fullbúnar í fyrra.

Samkvæmt HMS náðu aðeins þrjú sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að uppfylla þörf með nýjum fullbúnum íbúðum en það voru Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður og Seltjarnarnesbær.

Samkvæmt endurskoðuðum húsnæðisáætlunum fyrir árið 2024 er áætluð þörf fyrir 2.494 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu í ár. Það sem af er ári eru nýjar fullbúnar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu 953 talsins sem er um 38% af áætlaðri íbúðaþörf þegar árið er u.þ.b. hálfnað.