Verðbólga var nefnd sem stærsti ytri áhættuþátturinn í rekstri íslenskra fyrirtækja í könnun Deloitte sem framkvæmd var í september. Þetta er í fyrsta skipti frá því að könnunin var fyrst framkvæmd haustið 2014 þar sem gengisþróun íslensku krónunnar er ekki nefnd sem stærsti þátturinn.

Könnunin náði til 1.150 fjármálastjóra fyrirtækja í 15 Evrópulöndum, þar á meðal á Íslandi, og var send til fjármálastjóra 300 stærstu fyrirtækja landsins.

„Meirihluti fjármálastjóra er að gera ráð fyrir styrkingu krónunnar sem gæti skýrt hvers vegna gengisþróunin er að mælast með minna vægi sem áhættuþáttur, þrátt fyrir að sú spá hafi ekki raungerst, allavega ekki síðan könnunin var framkvæmd. Nú virðist verðbólgan stærri ógn en gengið, sem er eðlilegt þegar horft er til þess að þetta er langhæsta verðbólga sem hefur verið frá því að könnunin fór í loftið," segir Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir, sviðsstjóri Fjármálaráðgjafar hjá Deloitte á Íslandi.

Fjármálastjórar svartsýnni en Seðlabankinn

Þá eru auknar áhyggjur af vaxtastiginu, sem er næststærsti ytri áhættuþátturinn. Lovísa segir það áhugavert að vaxtastig sé fyrir ofan gengisþróunina og sitji í 2. sæti yfir helstu áhættuþætti. „Það skýrist fyrst og fremst af þessum miklu vaxtahækkunum síðustu mánuði. Samt eru vextir ekkert svo háir miðað við sögulega á Íslandi og raunstýrivextir ennþá neikvæðir, þó eðlilega hafi markaðurinn væntingar um að vextir lækki samhliða hjöðnun verðbólgu.“

Fjármálastjórar spá áframhaldandi hárri verðbólgu, og virðast svartsýnni en Seðlabankinn varðandi þróun hennar. Sem dæmi má sjá að íslenskir fjármálastjórar væntu þess, þegar könnunin var gerð í september, að verðbólgan yrði 6,9% árið 2023 og 5,0% árið 2024. Á þeim tíma hafði nýútgefin skýrsla Peningamála Seðlabankans spáð fyrir um 3,4% verðbólgu árið 2024.

Verðbólga var nefnd sem stærsti ytri áhættuþátturinn í rekstri íslenskra fyrirtækja í könnuninni.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.