Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, gerir ráð fyrir að frumvarp sem snýr að störfum ríkissáttasemjara verði lagt fyrir Alþingi í byrjun mars. Þetta kemur fram í uppfærðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar en í haust var gert ráð fyrir að frumvarpið kæmi í janúar. Áður hafði ráðherra ýjað að því að frumvarpið gæti komið haustið 2023.

Fyrr í dag sendi breiðfylking verkalýðshreyfingarinnar frá sér yfirlýsingu um að þau hafi ákveðið að vísa kjaradeilu við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara eftir að viðræðurnar, sem staðið höfðu staðið yfir frá áramótum, runnu í sandinn. Áður höfðu aðilar vinnumarkaðarins virst vongóðir um að samningar næðust.

Það er því ljóst að þurfi ríkissáttasemjari að skerast í leikinn núna muni hann ekki hafa þær heimildir sem kallað var eftir í kjölfar kjaraviðræðnanna síðasta vetur. Þáverandi ríkissáttasemjari ákvað að stíga til hliðar í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins eftir misheppnaða miðlunartillögu í byrjun síðasta árs.

Stjórnarfrumvarp um ríkissáttasemjara var afgreitt af flokkunum í ríkisstjórn á síðasta þingvetri en vinnumarkaðsráðherra ákvað að leggja málið ekki fram í ljósi andstöðu verkalýðshreyfingarinnar. Vildi hann eiga nánara samstarf við verkalýðshreyfinguna við gerð frumvarps.

Nýtt frumvarp hefur ekki enn komið fram í samráðsgátt en viðbúið að það taki nokkurn tíma að vinna úr umsögnum og því ólíklegt að frumvarpið nái í gegn í tæka tíð, jafnvel þó ráðherra ákveði að flýta því.

Sameining héraðsdómstóla á ís

Þó nokkrum málum er seinkað og önnur falla niður samkvæmt uppfærðri þingmálaskrá. Af þeim málum sem felld eru niður og verða því ekki lögð fram á yfirstandandi þingi er frumvarp dómsmálaráðherra um sameiningu héraðsdómstólanna.

Þar stóð til að sameina alla átta héraðsdómstóla landsins í einn héraðsdómstóll en hann yrði með starfsstöðvar á þeim stöðum þar sem héraðsdómstólar eru nú. Var það í samræmi við tillögur starfshóps sem skipaður var vorið 2022 og skilaði af sér skýrslu í lok 2022. Ljóst var að nokkur andstaða yrði við frumvarpið en það mál verður að bíða.

Áður en þingmálaskráin var birt í haust hafði verið greint frá því að Guðrún Hafsteinsdóttir, sem tók við af Jóni Gunnarssyni sem dómsmálaráðherra í sumar, hafi ákveðið að falla frá áformum um sameiningu sýslumannsembætta.

Undirstofnanir ráðuneytanna eru um 160 talsins en hagræðingaraðgerðir sem kynntar voru í fyrra miðuðu meðal annars að því að fækka þeim. Dómsmálaráðuneytið er með flestar stofnanir, alls 38.