Áform um setningu heildarlaga um rýni á beinum erlendum fjárfestingum, einkum á sérlega viðkvæmum sviðum með tilliti til þess hvort þær samræmist þjóðaröryggi og allsherjarreglu, voru birt í samráðsgátt stjórnvalda fyrr í sumar.
Á meðal þess sem telst til sérlega viðkvæmra geira og starfsemi og verður því tilkynningaskylt samkvæmt áformunum eru „fyrirtæki sem starfa við framleiðslu eða þróun á mikilvægri tækni, annarri en fellur undir aðra töluliði þessa ákvæðis“. Í umsögn Egils Mássonar, framkvæmdastjóra sprotafyrirtækisins Akthelia Pharmaceuticals Ltd., í samráðsgátt stjórnvalda er fjallað um íþyngjandi áhrif sem slík fjárfestingarýni gæti haft á sprotafyrirtæki í djúptækni. Þá segir í umsögninni að í áformunum komi fram að undir 4. tölulið geti til dæmis fallið „gervigreind, þróuð þjarkatækni og drónatækni, þrívíddarprentun til framleiðslu íhluta til iðnaðarnota, hálfleiðarar, kjarnorkutækni, skammtatækni, nanótækni, líftækni, flug- og geimtækni, tækni til varðveislu orku til iðnaðarnota, til orkuumbreytingar og orkuflutninga, tækni tengd umhverfisvernd og aðgerðum gegn loftslagsbreytingum, o.fl. “
Flestir þessara þátta lúti að því sem kallað hafi verið djúptækni. Þau sprotafyrirtæki sem vinna að vörum sem byggi á slíkri tækni sæki fjármagn sitt gjarnan til sérhæfðra erlendra fjárfestingarsjóða sem hafi djúpa sérþekkingu og víðtækt tengslanet á afmörkuðu sviði. „Það er afar mikilvægt en ekki auðvelt að sækja erlent fjármagn til slíkra fyrirtækja og ég vil vara við því að setja upp hindranir á þeirri vegferð. Slíkar hindranir koma sérlega illa við sprotafyrirtæki sem hafa takmarkaða umgjörð til að fást við flókin regluverk,“ segir í umsögninni.