Sam­kvæmt nýrri skýrslu Lands­nets um kerfis­jöfnuð eru auknar líkur á skerðingum á raf­orku til ársins 2028 en Lands­net metur stöðu fram­boðs, notkunar og mögu­lega veik­leika í fram­tíðar­ra­forku­kerfinu.

Sam­kvæmt nýrri skýrslu Lands­nets um kerfis­jöfnuð eru auknar líkur á skerðingum á raf­orku til ársins 2028 en Lands­net metur stöðu fram­boðs, notkunar og mögu­lega veik­leika í fram­tíðar­ra­forku­kerfinu.

„Án upp­byggingar í flutnings­kerfinu og nýjum virkjunum eykst hættan á skerðingum um­tals­vert á næstu 5 árum og á­hætta á skerðingum á for­gangs­orku, sem eru um­fram heimildir í samningum, eykst með hverju ári,“ segir í skýrslunni.

Sam­kvæmt greiningu Lands­nets er á­hætta á skerðingum mest á fyrsta og öðrum árs­fjórðungi hvers árs.

Tekið er fram að upp­bygging flutnings­kerfisins muni draga úr líkum á skerðingum til not­enda raf­orku en það eitt og sér muni ekki duga til að tryggja að fram­boð mæti eftir­spurn.

„Virkjanir í nú­verandi á­standi hafa ekki burði til að anna aukinni raf­orku­notkun til næstu 5 ára óháð því hversu mikið næst að styrkja flutnings­kerfið. Virkjun nýrrar orku er nauð­syn­leg til að snúa þróuninni við. Fyrir­hugaðar virkjana­fram­kvæmdir næstu 5 ára halda afl- og orku­jöfnuði ein­göngu í horfinu. Á­hætta er á að líkur á skertri for­gangs­orku þre­faldist í slæmu vatns­ári.“

Með upp­byggingu flutnings­kerfis og nýjum virkjunum mun á­standið byrja á að versna og rétta svo úr kútnum eftir árið 2026 en líkur eru á að orku­skortur verði meiri árið 2028 en í ár.

„Ekki má sofna á verðinum því að árið 2028 er verra en árið 2024. Á­hætta er á að ekki verði hægt að mæta eftir­spurn raf­orku yfir tíma­bilið 2024 – 2028. Ef fram­kvæmdir í flutnings­kerfi og nýjum virkjunum raun­gerast dregur úr á­hættu á skerðingum for­gangs­orku. Á­hætta á skerðingum á for­gangs­orku eykst í slæmu vatns­ári og ef upp­bygging flutnings­kerfis og nýrra virkjana tefst.“

Landsnet segir að staðan verður flókin næstu 12-18 mánuði þar sem vís­bendingar eru um að forði uppi­stöðu­lóna muni verða nokkurn tímann að rétta úr kútnum eftir ó­venju­lega þurrt tíma­bil 2023-2024.

Ofan á það bætist að enn eru nokkur ár í að sam­tenging flutnings­kerfis náist á milli lands­hluta.

„Þetta gerir það að verkum að raf­orku­kerfið má til skemmri tíma ekki við stórum á­föllum eins og við­líka þurru vatns­ári eða langri rekstrar­stöðvun stærri afl­stöðva svo dæmi séu tekin. Svig­rúm til við­halds­stöðvana á þessu tíma­bili gæti farið minnkandi á meðan komist er yfir erfiðasta hjallann. Huga þarf að fjöl­breyttum leiðum til að takast á við hugsan­legar á­hættur á skerðingum for­gangs­orku. Má þar nefna með gagn­sæjum verð­merkjum á virkum orku­markaði, þróun reglu­verks, sveigjan­lega verð­lagningu, ráð­stafanir til að vald­efla neyt­endur, þátt­töku stór­not­enda eða nota markaðs­að­ferðir til að bregðast við,“ segir í skýrslunni.