Fjártæknifyrirtækið Aurbjörg hefur sett í loftið nýjan og endurbættan áskriftarvef fyrir notendur sína. Á áskriftarvefnum geta notendur skráð fasteignina sína og fengið uppfært verðmat í hverjum mánuði til að fylgjast með verðþróun á skýran hátt.
„Með því að skrá fasteignalánin þín færðu innsýn í stöðu þeirra og berð þau saman við önnur lán á markaðnum. Lánskjaravaktin lætur þig vita um leið og betri lán bjóðast, svo þú missir ekki af tækifærum til endurfjármögnunar,“ segir í tilkynningu Aurbjargar.
Þá lætur eignavakt notendur vita af „draumaeign“ sem þeir hafa efni á um leið og eignin kemur í sölu.
„Þú getur fullkomnað fasteignaleitina með Eignavakt sem býður upp á hefðbundin leitarskilyrði að viðbættu léttu greiðslumati sem birtir þér fyrst eignir þú hefur efni á. Slík fasteignaleit er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.“
„Við vitum að þegar fólk hefur góða yfirsýn í eigin fjármálum, þá verður það sjálfsöruggara í ákvarðanatöku, og það er einmitt markmið okkar,“ segir Ásdís Arna Gottskálksdóttir, framkvæmdastjóri Aurbjargar. „Nýi áskriftarvefurinn veitir nauðsynlegar upplýsingar sem hjálpa fólki að sjá tækifæri og taka betri ákvarðanir.”