Austurálma Keflavíkurflugvallar var formlega opnuð í dag en nýja viðbyggingin stækkar flugstöðina um 30%.

Í tilkynningu segir að Austurálman sé fyrsta stóra skrefið í þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar sem miði að því að fjölga tengingum og styrkja samkeppnishæfni Íslands.

Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsráðherra sagði að alþjóðleg tengsl og samgöngur séu undirstaða hagvaxtar og velsældar á Íslandi. Landið hefur því mikla hagsmuni að gæta af greiðum og öflugum samgöngum til og frá landinu.

„Austurálman, sem við opnum formlega í dag, er ekki aðeins enn eitt skrefið í uppbyggingu flugvallarins, heldur áþreifanleg staðfesting á framtíðarsýn um að hann verði alþjóðleg tengistöð milli Evrópu og Norður-Ameríku,“ sagði Daði við opnun.

Kristján Þór Júlíusson, stjórnarformaður Isavia, sagði jafnframt í ræðu sinni að þrátt fyrir að rekstur Isavia gengi vel þá væri umfang þeirra framkvæmda sem nauðsynlegt væri að ráðast í á næstu árum af þeirri stærðargráðu að efnahagsreikningur félagsins myndi ekki standa undir þeim framkvæmdakostnaði sem þyrfti. „Það er óhjákvæmilegt að styrkja félagið með auknu hlutafé.“