Eignarhaldsfélagið Aztiq, sem er að stærstum hluta í eigu Róberts Wessman, hefur selt lyfjafyrirtækið Adalvo til fjárfestingafélagsins EQT, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Fjárfestingin er háð hefðbundnum fyrirvörum og er gert ráð fyrir að viðskiptunum verði lokið á síðari helmingi ársins.
Ekki er greint frá kaupverðinu en Róbert sagði í viðtali við Hluthafann í síðasta mánuði að Adalvo væri metið á um 110 milljarða króna í söluferlinu.
Aztiq stofnaði Adalvo árið 2018 og hefur það milligöngu um samninga milli lyfjafyrirtækja um skráningu og markaðssetningu samheitalyfja. Adalvo vinnur með meira en 170 lyfjafyrirtækjum í 140 löndum um allan heim og hjá því starfa um 280 manns.
EQT er fjárfestingarfélag sem var stofnað fyrir rúmum 30 árum af Wallenberg fjölskyldunni í Svíþjóð.
„Adalvo á það sameiginlegt með öðrum fyrirtækjum sem ég hef stofnað að markmið þess er að mæta aukinni eftirspurn um allan heim eftir hagkvæmari hágæða lyfjum. Þegar við stofnuðum Adalvo árið 2018 var ætlunin að gjörbylta mikilvægu sviði innan lyfjaiðnaðarins,” segir Róbert Wessman, í tilkynningu.
„Ég er gríðarlega stoltur af þeim árangri sem Adalvo og stjórnendur þess hafa náð á skömmum tíma og óska EQT til hamingju með að eignast þetta frábæra félag. Adalvo mun halda áfram blómstra með þeirra stuðningi. Ég hlakka til samstarfsins við EQT sem minnihlutaeigandi og að stuðla að áframhaldandi vexti Adalvo.“
Fjárfestingabankinn Jefferies var ráðgjafi Aztiq við söluna og lögfræðistofan Hogan Lovells veitti lögfræðilega ráðgjöf.
„Adalvo hefur vaxið mjög hratt og þegar náð afar sterkri stöðu á sínu sviði. Adalvo teymið hefur sannað að það getur brugðist hratt við nýjum aðstæðum og tekist á við verkefni af öllum stærðum og gerðum. Við erum mjög hrifin af þeim árangri sem Róbert Wessman hefur náð sem eigandi Adalvo og fögnum því að hann sé tilbúinn að taka áfram þátt í þessari vegferð sem minnihlutaeigandi,” er haft eftir Matteo Thun, meðeiganda í EQT.
„Við erum afar spennt fyrir því að vinna með EQT, sem hefur náð frábærum árangri í fjárfestingum á heilbrigðissviði. Stefna EQT fellur ákaflega vel að metnaðarfullum áformum Adalvo um aukinn vöxt á komandi árum,” sagði Anil Okay, forstjóri Adalvo.