Alvotech hefur ákveðið að fara í lokað útboð til hæfra fjárfesta á víkjandi skuldabréfum með breytirétti yfir í almenn hlutabréf.
Alls verða í boði skuldabréf í íslenskum krónum eða Bandaríkjadollurum að andvirði að minnsta kosti 100 milljónir Bandaríkjadollara, eða um 13 milljarðar íslenskra króna á núverandi gengi.
Fyrr í dag var tilkynnt að Alvotech og Teva Pharmaceuticals, bandarískt dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. Væru auka samstarf sitt og mun Teva koma að undirbúningi fyrir væntanlega úttekt FDA á framleiðsluaðstöðu Alvotech.
Teva fjárfesti jafnframt í víkjandi skuldabréfum Alvotech með breytirétti í hlutabréf, að andvirði 5,2 milljarðar króna miðað við núverandi gengi (40 milljónir Bandaríkjadala).
Bera 15% vexti á ársgrundvelli
Samkvæmt tilkynningu frá Alvotech er fyrirhugað að gefa út ný skuldabréf í áður útgefnum flokki, með útgáfudag 20. desember 2022 og lokagjalddaga 20. desember 2025
Útgáfurammi flokksins, sem er tvískiptur og annarsvegar í Bandaríkjadollurum og hins vegar í íslenskum krónum, er allt að 200 milljónir Bandaríkjadollara að nafnvirði.
Þegar hafa verið gefin út skuldabréf í flokknum að nafnvirði 107 milljónir Bandaríkjadollara sbr. tilkynningu um sölu á bréfum að andvirði 70 milljónir Bandaríkjadollara í desember 2022 og tilkynningu um sölu á bréfum að andvirði 40 milljónir Bandaríkjadollara fyrr í dag (nafnvirði 37 milljónir Bandaríkjadollara).
Skuldabréfin í íslenskum krónum eru skráð til viðskipta á Nasdaq First North Growth markaðnum undir auðkenninu ALVCVB251220 og bera 15% vexti á ársgrundvelli, með tveimur vaxtadögum á ári.
Útboðið hófst í morgun
Skuldabréfin í Bandaríkjadollurum eru óskráð og bera 12,5% vexti á ársgrundvelli, með tveimur vaxtadögum á ári. Vextir bætast við höfuðstólinn á hverjum gjalddaga og ávaxtast (s.n. PIK vextir). Handhafar bréfanna hafa rétt til að breyta höfuðstól og áföllnum vöxtum, að hluta eða í heild, í almenn hlutabréf Alvotech á föstu gengi sem er 10 Bandaríkjadollarar á hlut, annars vegar 31. desember nk. og hins vegar 30. júní 2024.
Útboðið hófst í morgun kl. 9:00 mánudaginn 24. júlí og þurfa öll tilboð að berast fyrir kl. 14:00 sunnudaginn 30. júlí nk. Acro verðbréf hf. og Landsbankinn hf., fyrirtækjaráðgjöf, hafa umsjón með útgáfu og sölu skuldabréfanna. Aðeins hæfir fjárfestar á Íslandi í samræmi við ákvæði laga og reglugerða þar að lútandi, mega taka þátt í útboðinu.
Skuldabréfin verða seld á föstu verði sem miðar við uppreiknað andvirði skuldabréfanna („par verð“) á uppgjörsdegi sem áætlað er að verði 11. ágúst nk. Seld verða skuldabréf fyrir að minnsta kosti 100 milljónir Bandaríkjadollara að andvirði, um 91 milljón Bandaríkjadollara að nafnverði.
ATP Holdings ehf., félag tengt Aztiq Pharma Partners S.a. r.l. sem er stærsti hluthafi Alvotech, hefur gert samning við félagið sem skuldbindur ATP Holdings ehf. til að kaupa öll skuldabréf í útboðinu sem ekki verða seld öðrum samkvæmt gildandi tilboðum, allt að andvirði 100 milljóna Bandaríkjadollara.