Sverrir Einar Eiríksson, eigandi skemmtistaðarins í Bankastræti 5 sem þekktur hefur verið sem B5, hefur ákveðið að breyta nafni staðarins í „B“ eftir að lögbann var lagt á notkun heitisins B5.

„Okkur urðu á mistök þegar við gáfum staðnum nafn eftir eigendaskiptin í sumar, en heitið B5 reyndist í eigu einkahlutafélags. Síðan fór lögbannskrafan fram hjá mér þannig að málið rataði í þetta lögbannsferli. Þetta þykir mér miður og bið ég hlutaðeigandi afsökunar á því,“ segir Sverrir Einar Eiríksson, sem ásamt unnustu sinni, Vestu Minkute, tók yfir rekstur Bankastrætis Club í byrjun júní.

Birgitta Líf Björnsdóttir stofnaði skemmtistaðinn Bankastræti club í sama húsi og B5 í júlí 2021 en seldi svo hluta sinn í staðnum til Sverris Einars og Vestu Mikute. Þá var það yfirlýst markmið nýrra rekstraraðila að endurvekja stemninguna sem áður einkenndi B5 og gera hann aftur að besta skemmtistað borgarinnar.

„Við erum því ekkert að flækja hlutina þegar við breytum nafni staðarins og fellum bara niður fimmuna í heitinu. Hér eftir nefnist hann B. Annað er óbreytt og gleðin áfram við völd á besta stað í bænum í Bankastræti 5,“ segir Sverrir.