Þýska fyrirtækið Baader hefur samið um kaup á eftirstandandi 40% hlutafjár í hátæknifyrirtækinu Skaganum 3X en Baader keypti 60% hlut í fyrirtækinu á síðasta ári. Baader kaupir 40% hlutinn af  I.Á.-Hönnun, félagi Ingólfs Árnasonar, stofnanda Skagans 3X, og Guðrúnar Agnesar Sveinsdóttir, eiginkonu hans. Ingólfur lét af störfum sem forstjóri í lok síðasta árs.

Í tilkynningu kemur fram að Skaginn 3X verði hluti af Baader samsteypunni sem sérhæfir sig í hátæknilausnum í matvælaframleiðslu. Samþætting starfsemi félaganna sé þegar hafin og reiknað er með að henni ljúki á næstu mánuðum.

„Þetta eru góðar fréttir fyrir fyrirtækið og starfsmenn þess og fyrirtækið verður nú betur í stakk búið að takast á við skuldbindingar sínar og þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækisins,“ er haft eftir Jeff Davis, stjórnarformanni Skagans 3X.

Davis mun áfram gegna stjórnarformennsku hjá Skaganum 3X. Guðjón Ólafsson er starfandi forstjóri fyrirtækisins.