Tilkynnt var um tímabundna lokun kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka vð Húsavík í lok maí og var 80 starfsmönnum verksmiðjunnar sagt upp. Í tilkynningu frá fyrirtækinu sagði að ákvörðunin hafi verið tekin vegna erfiðleika á mörkuðum fyrir kísilmálm og raskana, sem orðið hafa í kjölfar í tollastríðs. Ennfremur sagði að ódýr innflutningur á niðurgreiddum kísilmálmi, sérstaklega frá Kína, hafi haft mikil áhrif á markaðsverð.

Sendu stjörnvöldum kvörtun

Vegna þessa sendu eigendur PCC á Bakka fjármála- og efnahagsráðuneytinu kvörtun, þar sem krafist er aðgerða. Telja þeir að kísilmálmframleiðsla í Kína njóti ríkisaðstoðar og vilja að brugðist verði við því. Í því sambandi hefur meðal annars verið bent á að Evrópusambandið hafi lagt tolla á kínverskan kísilmálm.

Þessi kvörtun er nú á borði Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra. Ráðherra hefur sagt málið vera umfangsmikið og bent á að Ísland sé með fríverslunarsamning við Kína, sem standa þurfi við. Aftur á móti sé hugmyndin með slíkum samningum ekki sú að ríki geti niðurgreitt vöru til að bæta samkeppnisstöðu sína.

Kári Marís Guðmundsson, tók við sem forstjóri PCC BakkiSilicon hf. í vor en hann hefur starfað hjá fyrirtækinu síðan í lok árs 2023. Ráðning hans var liður í umbótaverkefni, sem hrint var af stað síðasta vetur með alþjóðlega ráðgjafafyrirtækinu Alvarez & Marsal. Kári Marís var áður yfirmaður stefnumótunar hjá PCC á Bakka en hann hefur mikla reynslu úr þessum geira, var meðal annars framkvæmdastjóri og framleiðslustjóri hjá Elkem á Grundartanga um árabil.

Báðu PCC um frekari gögn

Kári segir að kvörtunin til stjórnvalda hér heima hafi snúið að því að þau hafi verið beðin að rannsaka undirboð á kísilmálmi og ólöglega ríkisstyrki.

„Við sendum kvörtunin 8. apríl,“ segir hann. „Í samræmi við tollalög byrjuðu stjórnvöld á setja saman nefnd, sem mér skilst að hafa nánast aldrei verið gert eða að minnsta kosti mjög sjaldan. Við fengum bréf frá nefndinni þann 27. maí, þar sem við vorum beðin um ítarlegri gögn og skýringar og fengum þrjátíu daga til að svara. Við munum því svara þessu bréfi í vikunni og veita nefndinni ítarlegri gögn. Í framhaldinu vonumst við til að nefndin hefji rannsókn. Málið er sem sagt ekki enn komið á þann stað.

Okkur fannst svolítið skrítið að við værum beðin um frekari gögn er lúta að framleiðslu kísilmálms í Kína og verðlagningu þar í landi því við töldum okkur hafa veitt nægilegar upplýsingar svo rannsókn gæti hafist m.a. skýrslur frá Evrópusambandinu og Bandaríkjunum.“

Skrítin beiðni

„Það er hlutverk stjórnvalda samkvæmt íslenskum tollalögum, sem eru mjög svipuð þeim evrópsku, að rannsaka mál," segir Kári. „Við getum sent inn kvörtun en það er nefndarinnar að gera sjálfstæða rannsókn og fá gögn frá hlutaðaeigandi aðilum. Ég hef unnið í þessum geira lengi og tekið þátt í svipuðum málum í gegnum evrópsk samtök kísilmálmframleiðanda en þá voru kvartanir sendar til Evrópusambandsins. Þar hefur kvartandinn aldrei þurft að gera það sem við erum beðin um núna heldur hefur dugað að sýna fram á að starfsemin sé að verða fyrir áhrifum og Evrópusambandið hefur svo eftir atvikum hafið rannsókn.

Okkur fannst því skrítið að beðið væri um þessi gögn núna en við munum eftir fremsta megni veita nefndinni frekari gögn og vonandi dugar það svo farið verði af stað í rannsókn í kjölfarið með birtingu í Lögbirtingablaðinu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.