Bæjarráð Ölfuss er jákvætt og lýsti yfir stuðningi við viljayfirlýsingu um úttekt á forsendum uppbyggingar og rekstur Coda-stöðvar í Ölfusi.
Sveitarfélagið Ölfus, Hafnarsjóður Þorlákshafnar, Carbfix hf., Coda Terminal hf. og Veitur ohf. lögðu fram viljayfirlýsinguna á fundi bæjarráðs.
„Verkefnið felur í sér móttöku, niðurdælingu og bindingu á CO2 með nýtingu Carbfix-tækninnar, sem byggir á náttúrulegum ferlum til varanlegrar bindingar koldíoxíðs í berg,” segir í fundargerð bæjarráðs.
Bæjarráð Ölfuss segir að aðgerðin sé þekkt innan sveitarfélagsins enda hefur Carbfix hf. staðið að niðurdælingu sem þessari á vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar í Ölfusi án vandkvæða frá 2012 en alls hefur 75.000 tonnum af CO2 verið dælt niður í borholur þar síðan 2014.
„Bæjarráð tekur jákvætt í erindið og lýsir yfir stuðningi við framkomna viljayfirlýsingu. Jafnframt ítrekar bæjarráð mikilvægi þess að málið sé unnið í nánu samstarfi við sveitarfélagið, með sérstakri áherslu á samvinnu við íbúa og aðra hagaðila, til að tryggja að verkefnið verði í sátt við nærumhverfi,“ segir í fundargerð bæjarráðs.
Áætlunum um samskipti og kynningu verkefnisins verður hrint í framkvæmd strax við undirritun viljayfirlýsingarinnar, að sögn bæjarráðs, en þá verður jafnframt tryggt að verkefnið uppfylli öll lagaleg og skipulagsleg skilyrði.