Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar samþykkti fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2023 auk þriggja ára áætlunar 2024-2026 við síðari umræðu nú í vikunni. Í áætluninni kemur fram að unnið verði að hagræðingu innan samstæðu bæjarins á komandi ári, en samkvæmt útkomuspá mun hún skila tæplega 50 milljóna halla á árinu sem er að líða.

Í áætluninni kemur einnig fram að bæjarstjórinn Þór Sigurgeirsson hafi óskað eftir því að föst laun hans sem bæjarstjóri yrðu lækkuð um 200 þúsund krónur á mánuði á árinu 2023. Með því vilji hann sýna ábyrgð og gott fordæmi í rekstri bæjarins á erfiðum tímum, að því er kemur fram í tilkynningu frá bænum.

Þar að auki ætla bæjarfulltrúar að taka á sig 5% launalækkun fyrir setu í bæjarstjórn á árinu 2023, en auk bæjarstjóra sitja sex bæjarfulltrúar í bæjarstjórn, þrír frá Sjálfstæðisflokki og þrír frá Samfylkingu.

Í fjárhagsáætluninni er þá gert ráð fyrir lækkun álagningar fasteignagjalda bæði á íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði verða því lægstir á Nesinu og í Garðabæ en skattar á atvinnuhúsnæði lægstir á Nesinu.

Gert er ráð fyrir að íbúum bæjarins fjölgi um 500 manns á árunum 2024-2026. Svokölluð Gróttubyggð, hverfi sem er staðsett vestast á Seltjarnarnesi, mun rísa á næstu árum og fara fyrstu íbúðir í sölu í upphafi árs 2024.