Á tímabilinu mars 2022 - apríl 2023 hefur verðlagsnefnd búvöru hækkað heildsöluverð um 16,2%. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 11,3% og vísitala matar og drykkjar, sem inniheldur meðal annars mjólkurvörur, hækkað um 14%.
Heildsöluverð mjólkurvara er það verð sem MS selur vörurnar til smásöluverslana. Álagning verslananna er síðan frjáls og því getur verð á mjólkurafurðum verið breytilegt á milli verslana hérlendis.
Reynir Þór Jónsson, nautgripa- og sauðfjárbóndi á Hurðarbaki í Flóa og einn fulltrúa Bændasamtaka Íslands í verðlagsnefndinni, segir að mjólkurverðshækkanir af hálfu nefndarinnar hafi ekki haldið í við kostnaðarverðshækkanir bænda undanfarin ár.
„Það hefur verið mikil barátta hjá bændum að fá verðlagt rétt, og við erum eins og er að greiða með mjólkurframleiðslunni okkar sem nemur um 15 krónum á líter. Áburður hefur hækkað um 100% á síðastliðnu ári og tjarnfóður um 50%, auk þess sem olía og plast hefur hækkað mikið. Í ofanálag eru launahækkanir sem bændur hafa sem betur fer náð í gegn. Að lokum er ekki komið til móts við vaxtahækkanir undanfarinna missera."
Hagnaðurinn lítill miðað við veltu
Auðhumla, samvinnufélag mjólkurbænda og móðurfélag Mjólkursamsölunnar, skilaði 461 milljón króna hagnaði á síðasta ári. Veltan jókst um 12% milli ára og nam 38,8 milljörðum króna og var hagnaðarhlufallið því um 1,2%. Reynir segir hagnaðinn lítinn miðað við stærð iðnaðarins.
„Þetta er ekki mikill hagnaður miðað við veltuna og ekkert fyrirtæki á Íslandi myndi sætta sig við þetta. Það hefur vissulega átt sér stað söluaukning í iðnaðinum og þá hefur átt sér stað gríðarleg hagræðing í iðnaðinum. Við bændur höldum því þó fram að við séum líklega að sigla á endastöð í mögulegum hagræðingum.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 11. maí. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.