Ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar um að afnema undanþágur frá greiðslu erfðafjárskattar meðal bænda hafa vakið hörð viðbrögð. Þúsundir bænda mótmæltu á götum Lundúna í gær og keyrðu einhverjir um Westminster á traktorum til að láta óánægju sína í ljós.

Hingað til hafa bændur ekki þurft að greiða erfðafjárskatt af landbúnaðareignum en nú stendur til að leggja 20% erfðafjárskatt á eignir býla sem eru meira en milljón punda virði. Er breytingunum meðal annars ætlað að koma í veg fyrir að auðugir einstaklingar kaupi landsvæði og býli til að komast hjá því að greiða erfðafjárskatt.

Formaður verkalýðsfélags bænda í Bretlandi sagði bændur hafa verið svikna af yfirvöldum en þeim hafði verið lofað áður en núverandi ríkisstjórn Verkamannaflokksins tók við völdum að breytingar yrðu ekki gerðar á kerfinu.