Kínverska útgáfan af Google, Baidu, hefur tilkynnt að hún muni gefa út gervigreindarforrit á seinni hluta þessa árs. Hin fyrirhugaða uppfærsla kemur á sama tíma og kínversk gervigreind stendur í harðri samkeppni við bandarísk fyrirtæki.
Baidu var fyrsta stóra kínverska fyrirtækið til að gefa út sína eigin útgáfu af ChatGPT árið 2023 en það forrit kallaðist Ernie.
Líkanið sem verður gefið út síðar á þessu ári kallast Ernie 5.0 og getur unnið úr texta, myndböndum, myndum og hljóði og getur bæði sameinað þau og umbreytt. Þá getur það einnig skilið mismunandi tungumál og haldið uppi samskiptum.
Kínversk fyrirtæki hafa verið að hasla sér völl á gervigreindarmarkaðnum undanfarin misseri.
Nýlega kom kínverska fyrirtækið DeepSeek mörgum á óvart með gervigreindarforriti sínu sem vakti mikla hrifningu meðal notenda, sérstaklega með tilliti til kostnaðar.