Stærsti hluthafi Icelandair, bandaríska fjárfestingafélagið Bain Capital, hefur nýtt kauprétti og bætt við 3,6% hlut í Icelandair fyrir um 2,3 milljarða króna. Gengið í viðskiptunum, sem ákveðið var fyrir ári, nam 1,64 krónum á hlut.
Gengi bréfa Icelandair stóð í 1,91 krónum á hlut við lokun markaða í dag og fara kaupin því fram á gengi sem er um 14% undir núverandi gengi bréfa í félaginu. Tilkynnt var um nýtingu kaupréttanna í kvöld en gefið verður út nýtt hlutafé í Icelandair.
Bain Capital kom inn í hluthafahóp Icelandair í júlí á síðasta ári og varð stærsti hluthafinn með 16,6% hlut. Þá keypti Bain í Icelandair fyrir ríflega átta milljarða króna á genginu 1,43 krónur á hlut. Samhliða því fékk Bain kauprétt að 2,3 milljarða króna hlut til viðbótar á genginu 1,64 krónum á hlut. Kauprétturinn virkjaðist eftir uppgjör Icelandair á öðrum fjórðungi fyrir viku og átti að vera virkur í tíu daga.
Samhliða fjárfestingu Bain Capital á síðasta ári kom Matthew Evans, framkvæmdastjóri hjá Bain, inn í stjórn Icelandair í stað Úlfars Steindórssonar sem hafði þá setið í stjórninni í áratug.