Stjórn Bakkavör hefur náð samþykkt helstu fjárhagsleg skilyrði yfirtökutilboðs írska matvælafyrirtækisins Greencore. Tilboðið felur í sér að hluthafar Bakkavör fá bæði greitt í reiðufé og eignast samtals um 44% af heildarhlutafé sameinaðs félags.

Í tilkynningu Bakkavarar til kauphallarinnar í London segir að samkomulagið sé m.a. háð því að stjórnir félaganna nái saman um önnur skilyrði, t.d. sem varða samþykki eftirlitsaðila, og niðurstöðu sameiginlegrar áreiðanleikakönnunar.

Tilboðið er sagt verðmeta Bakkavör á tæplega 1,2 milljarða punda, eða ríflega 200 milljarða króna, sem samsvarar 200 pensum á hlut. Fram kemur að það sé 32,5% yfir dagslokagengi Bakkavarar 13. mars sl., sem er síðasti dagurinn áður en félögin greindu frá því að Greencore hefði lagt inn yfirtökutilboð í Bakkavör.

Hluthafar Bakkavarar myndu fá greitt út 85 pens á hlut og eignast 0,604 hluti í Greencore fyrir hvern hlut í Bakkavör.

Jafnframt myndu hluthafar Bakkavarar eiga rétt á viðbótargreiðslu ef rekstur Bakkavarar í Bandaríkjunum verður seldur fyrir 30. júní 2026 eða á tólf mánaða tímabilinu eftir að áformaður samruni félaganna gengur í gegn.

100 milljarða hlutur

Bræðurnir Ágúst og Lýður Guð­munds­synir eiga samtals um 49,1% hlut í Bakka­vör og Sigurður Valtýsson á 1,1% hlut. Samanlagt eiga þeir 290.864.760 hluti, eða 50,2% eignarhlut, í Bakkavör. Útlit er fyrir að þeir myndu eignast 22% hlut í sameinuðu félagi.

Miðað við ofangreint verðmat upp á 200 pens á hlut nemur virði eignarhlutar þeirra tæplega 582 milljónum punda, eða um 100 milljörðum króna.

Tekið er fram að ef af samrunanum verður muni Ágúst og Lýður taka sæti í stjórn sameinaðs félags.

Sameinað félag yrði með tekjur upp á 4 milljarða punda. Félögin telja að hægt sé að ná fram talsverðri samlegð með samrunanum sem geti m.a. stutt við fjárfestingar í nýsköpun. Jafnframt muni hluthafar beggja félaga njóta góðs af því að eiga hlut í stærra félagi sem styðji við aukinn seljanleika bréfanna.

Sameinað félag yrði með tekjur upp á 4 milljarða punda. Félögin telja að hægt sé að ná fram talsverðri samlegð með samrunanum sem geti m.a. stutt við fjárfestingar í nýsköpun. Jafnframt muni hluthafar beggja félaga njóta góðs af því að eiga hlut í stærra félagi sem styðji við aukinn seljanleika bréfanna.

Hlutabréfaverð Bakkavarar hefur hækkað um meira en 7% frá opnun markaða í morgun og stendur í 191,8 pensum á hlut þegar fréttin er skrifuð.