Matvælafyrirtækið Bakkavör hefur skrifað undir bindandi samkomulag um sölu á rekstri sínum í Kína fyrir 50 milljónir punda, eða ríflega 8,6 milljarða króna. Bakkavör áætlar að viðskiptunum, sem eru háð samþykki eftirlitsaðila, ljúki á seinni helmingi ársins.

Bakkavör mun selja allt hlutafé í dótturfélagi sínu Bakkavor China Holdings Limited til kínverska félagsins Lihoo's (Qingdao) Food Industry Company Limited.

Dótturfélag Bakkavarar í Kína er með sjö framleiðslustaði og um 2.300 starfsmenn. Tekjur kínverska dótturfélagsins námu 105 milljónum punda, eða sem nemur 18,5 milljörðum króna.

Bókfært verð kínverska dótturfélagsins nam 39 milljónum punda í lok síðasta árs. Bakkavör áætlar að hagnaður af sölunni verði um 15 milljónir punda. Félagið segir að söluandvirðið verði nýtt til að greiða niður skuldir og styðja við brotthvarf félagsins af kínverska markaðnum.

Bakkavör segir í tilkynningu að síðustu tvö árin hafi félagið unnið að því að einfalda reksturinn í Kína. Kínverski markaðurinn hafi á liðnum árum dregið niður rekstrarhagnaðarhlutfall félagsins og ráðstöfunin mundi því styðja við markmið samstæðunnar til meðallangs tíma um að hlutfallið verði í kringum 6%.

Mike Edwards, forstjóri Bakkavarar, segir félagið hafa byggt upp öfluga starfsemi í Kína á undanförnum 20 árum.

Stjórn Bakkavarar, sem er skráð í kauphöllina í London, samþykkti í síðasta mánuði helstu fjárhagsleg skilyrði yfirtökutilboðs írska matvælafyrirtækisins Greencore. Tilboðið felur í sér að hluthafar Bakkavör fá bæði greitt í reiðufé og eignast samtals um 44% af heildarhlutafé sameinaðs félags.