Baldur Stefánsson, fráfarandi framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku, hefur tilkynnt um stofnun sérhæfðs fjárfestinga- og ráðgjafafyrirtækis sem fengið hefur nafnið Hamrar Capital Partners. Fyrsta verkefni félagsins verður kynnt á næstu vikum.
„Svo sem lítið skref fyrir mannkynið en stórt stökk fyrir tvítugan listamann sem fastur hefur verið í líkama fimmtugs bankamanns um stund,“ segir Baldur í færslu á Linkedin.
Ásamt honum verða meðeigendur í hinu nýja félagi Sveinn Heiðar Guðjónsson og Bjarki Logason ásamt Kviku banka. Baldur, Sveinn Heiðar og Bjarki eru samstarfsmenn til margra ára.

Baldur, sem er einn af stofnendum Arctica Finance, Iceland Airwaves og hljómsveitarinnar GusGus, gekk til liðs við Beringer Finance á Íslandi í byrjun árs 2017, en í september sama ár eignaðist Kvika banki fyrirtækjaráðgjöf Beringer á Íslandi.
Baldur hefur verið framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar Kviku síðan þá en í byrjun vikunnar var tilkynnt um að hann muni láta af störfum á næstu vikum.
„Baldur er einn af fyrstu starfsmönnunum sem ég tók þátt í að ráða til félagsins. Baldur hefur náð góðum árangri í að byggja upp starfsemi fyrirtækjaráðgjafar bankans og á hans vakt hefur ráðgjöfin komið að, og lokið, fjölmörgum verkefnum,“ sagði Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, í tilkynningunni.
„Eitt verkefni stendur upp úr í samstarfi okkar Baldurs, en það var þegar við unnum saman í ráðgjöf til stjórnenda Icelandair í endurfjármögnun félagsins eftir að Covid-19 faraldurinn skall á.“