Frá og með deginum í dag þurfa allir ferðamenn sem koma til Balí að greiða um tíu dali, eða um 1.400 krónur, við komuna til Balí. Ferðamannaskatturinn er hluti af áætlun indónesísku ríkisstjórnarinnar um að vernda bæði umhverfi og menningu eyjarinnar.
Balí er þekkt fyrir hreinar strendur og frábærar aðstæður fyrir brimbrettaáhugafólk, sem og gullfallegt landslag.
Samkvæmt opinberum gögnum heimsóttu rúmlega 4,8 milljónir ferðamanna eyjuna frá janúar til nóvember á síðasta ári. Fyrir heimsfaraldur var ferðaþjónustan rúmlega 60% af árlegri landsframleiðslu Balí.
Heimamenn hafa hins vegar í auknum mæli kvartað undan slæmri hegðun ferðamanna. Í mars í fyrra var rússneskum manni vísað úr landi eftir að hafa klætt sig úr við Agung-fjall, sem hindúar telja að sé heimili guðanna.
Í sama mánuði sögðust yfirvöld ætla að banna erlendum ferðamönnum að nota mótorhjól eftir fjölda umferðabrota af þeirra hálfu.
Ferðamannaskatturinn var tilkynntur í fyrra og gildir um alla erlenda ferðamenn sem koma til Balí erlendis frá eða frá öðrum hlutum landsins. Heimamenn frá Indónesíu þurfa hins vegar ekki að greiða þennan skatt en aðrir ferðamenn eru hvattir til að greiða hann fyrir komu til landsins í gegnum vefsíðuna Love Bali.