Bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitið hefur bannað notkun á hinu svokallaða Red No. 3-litarefni í matvælum og lyfjum en efnið hefur verið bendlað við krabbamein í dýrum. Þetta kemur fram á vef WSJ.
Ákvörðunin mun hafa áhrif á þúsundir matvæla á bandarískum markaði, þar á meðal kartöflumús frá Betty Crocker og beikonbita frá MorningStar Farms. Efnið finnst einnig í vörum sem eru ekki einu sinni rauðar á litinn, eins og sælgætiskorninu frá Brachs.
Matvælaframleiðendur hafa til ársbyrjunar 2027 til að endurgera vörur sínar sem notast við litarefnið. Neytendasamtök í Bandaríkjunum hafa ítrekað þrýst á stjórnvöld til að afturkalla leyfi fyrir aukaefnið vegna rannsókna sem sýndu fram á krabbamein í karlkyns rottum.
Bannið kemur í kjölfar aukinnar vitundarvakningar meðal Bandaríkjamanna á gervilitum og öðrum aukaefnum sem finnast í matvælum. Robert F. Kennedy Jr., sem hefur lengi talað gegn slíkum efnum, mun til að mynda leiða heilbrigðisráðuneyti Bandaríkjanna fyrir verðandi forseta, Donald Trump.