Bandaríkjadalur hefur veikst töluvert á síðustu vikum meðan lægð er yfir gjaldeyrisviðskiptum vegna yfirvofandi vaxtalækkana seðlabankans, samkvæmt Financial Times.
Vísitala Bandaríkjadals, sem mælir gengi dals gegn sex öðrum gjaldmiðlum, hefur lækkað um 3% frá því í byrjun ágúst og hefur vísitalan ekki verið lægri í rúmt ár.
Bandaríkjadalur er sögulega viðkvæmur fyrir væntingum um vaxtabreytingar sem og hagtölum um efnahag Bandaríkjanna. Veikingu dalsins á síðustu vikum má rekja til gagna um minnkandi efnahagsumsvif vestanhafs.
Bandaríkjadalur hefur veikst töluvert á síðustu vikum meðan lægð er yfir gjaldeyrisviðskiptum vegna yfirvofandi vaxtalækkana seðlabankans, samkvæmt Financial Times.
Vísitala Bandaríkjadals, sem mælir gengi dals gegn sex öðrum gjaldmiðlum, hefur lækkað um 3% frá því í byrjun ágúst og hefur vísitalan ekki verið lægri í rúmt ár.
Bandaríkjadalur er sögulega viðkvæmur fyrir væntingum um vaxtabreytingar sem og hagtölum um efnahag Bandaríkjanna. Veikingu dalsins á síðustu vikum má rekja til gagna um minnkandi efnahagsumsvif vestanhafs.
Um sexleytið á íslenskum tíma kynnir Jerome Powell vaxtaákvörðun seðlabankans en hagfræðingar og greiningaraðilar sammælast um að vextir verði lækkaðir. Óvissa ríkir um hvort Powell muni lækka vexti um 25 eða 50 punkta í fyrstu atrennu.
Stýrivextir í Bandaríkjunum eru 5,25 til 5,5 prósent og hafa ekki verið hærri í 23 ár.
Framvirkir samningar á gjaldeyrismarkaði benda til þess að fjárfestar séu sannfærðir um að vextir verði lækkaðir um 50 punkta en slík viðskipti hafa að sögn FT verið að setja enn meiri þrýsting á dalinn.
„Tveir hlutir sem hafa verið að ýta gengi Bandaríkjadals niður; veðmál á vaxtalækkun og svo stöðutökur með dalnum sem verið er að vinda ofan af núna,“ segir Mark McCormick, yfirmaður gjaldeyrisviðskipta hjá TD Securities, í samtali við FT.
Á sama tíma hafa aðrir gjaldmiðlar verið að styrkjast en þar má nefna til dæmis japanska jenið. Gengi jensins rauk upp við vaxtahækkanir í Japan og fór 1 dalur yfir 140 jen í fyrsta sinn í rúmt ár.
Á síðustu þremur mánuðum hefur Bandaríkjadalur veikst um tæplega 1,6% gagnvart krónunni og farið úr 139 krónum í 136,8 krónur.
Samhliða því að dalurinn hefur verið að veikjast hafa bandarísk hlutabréf verið að njóta góðs af bolamarkaði sem að mati FT sýnir klofning meðal fjárfesta um hvert efnahagur Bandaríkjanna stefnir.