Þrátt fyrir tímabundinn stöðugleika og væga styrkingu hefur bandaríkjadalur veikst verulega á árinu.
Aukið fjármagnsflæði frá Bandaríkjamarkaði, áhersla á eignadreifingu og áhyggjur af skuldastöðu Bandaríkjanna draga úr trú fjárfesta á framtíðarhlutverki gjaldmiðilsins í alþjóðaviðskiptum, samkvæmt MarketWatch.
Bandaríska dollaravísitalan (DXY) hélst yfir 100 stigum á fimmtudag en hún hefur lækkað um 7% frá áramótum. Þessi þróun bendir til minnkandi trausts á Bandaríkjadal sem varagjaldmiðli þrátt fyrir áframhaldandi vaxtamun í hag hans gagnvart helstu gjaldmiðlum, einkum evru.
Vaxtamunur skýrir ekki gengisþróun
Torsten Slok, aðalhagfræðingur fjárfestingarfélagsins Apollo, bendir á að vaxtamunur í hag bandaríkjadals gagnvart evru ætti að þrýsta evrunni nær gengisjöfnun (parity), þar sem ein evra jafngildir einum bandaríkjadal. Þrátt fyrir þetta hefur evran haldist í kringum 1,12 dali, sem Slok metur að sé um 10% of hátt gengi miðað við hrein áhrif vaxtamunar.
Þetta bendir til þess að markaðurinn sé undir áhrifum annarra þátta en hefðbundinna vaxtaáhrifa.
Samkvæmt greiningu ING banka hefur afvæðing Bandaríkjadals (de-dollarization) tekið við sér, sérstaklega eftir að Donald Trump tilkynnti um gagnkvæma tolla í byrjun apríl.
Alþjóðleg eignastýringarfyrirtæki hafa í kjölfarið flýtt fyrir dreifingu fjárfestinga og dregið úr vægi bandarískra eigna í eignasöfnum sínum.
Tölur frá japanska fjármálaráðuneytinu sýna að erlendir aðilar fjárfestu í japönskum hlutabréfum og skuldabréfum fyrir samtals 56 milljarða dala í apríl, sem er mesta innflæði í tvo áratugi.
Slík tilfærsla undirstrikar dvínandi áhuga á bandarískum eignum sem áður voru miðpunktur alþjóðlegrar fjárfestingar.
Ríkisfjármál Bandaríkjanna valda áhyggjum
Ávöxtunarkrafa á 30 ára ríkisskuldabréf Bandaríkjanna nálgast nú 5%, sem eykur áhyggjur fjárfesta af sjálfbærni ríkisfjármálanna.
Álagið (e. spread) gagnvart þýskum ríkisskuldabréfum jókst í apríl og hefur ekki gengið til baka, sem dregur úr trausti á skuldabréfamarkaði Bandaríkjanna.
Framkoma kínverska gervigreindarfyrirtækisins DeepSeek hefur vakið upp vangaveltur um hvort bandarísk yfirburðastaða í nýsköpun og fjármálum sé að bresta.
Samhliða hátt verðlögðum bandarískum eignum hefur þetta leitt til söluþrýstings á markaði og veikara gengis bandaríkjadals.
Sérfræðingar deila nú um hvort þessi þróun sé tímabundin leiðrétting eða upphaf að kerfisbundinni tilfærslu fjármagns og áhrifa á gjaldeyrismörkuðum.
Chris Turner hjá ING bendir jafnframt á að komandi fríverslunarsamningar Bandaríkjanna við helstu útflytjendur kunni að fela í sér gjaldmiðlaviðauka sem miða að því að draga úr gengisójafnvægi.
Myntir á borð við taívanska dollarann og suðurkóreska wonið, sem hafa styrkst að undanförnu, gætu þannig orðið áfram sterkar.
Að sama skapi hefur Donald Trump ítrekað sakað ríki á borð við Japan og Singapúr um að veikja eigin gjaldmiðla viljandi til að hagnast í viðskiptum, sem gæti leitt til aukins þrýstings og viðskiptadeilna.