Þrátt fyrir tíma­bundinn stöðug­leika og væga styrkingu hefur bandaríkja­dalur veikst veru­lega á árinu.

Aukið fjár­magns­flæði frá Bandaríkja­markaði, áhersla á eigna­dreifingu og áhyggjur af skuldastöðu Bandaríkjanna draga úr trú fjár­festa á framtíðar­hlut­verki gjald­miðilsins í alþjóða­við­skiptum, sam­kvæmt MarketWatch.

Bandaríska dollara­vísi­talan (DXY) hélst yfir 100 stigum á fimmtu­dag en hún hefur lækkað um 7% frá áramótum. Þessi þróun bendir til minnkandi trausts á Bandaríkja­dal sem vara­gjald­miðli þrátt fyrir áfram­haldandi vaxta­mun í hag hans gagn­vart helstu gjald­miðlum, einkum evru.

Vaxta­munur skýrir ekki gengisþróun

Tor­sten Slok, aðal­hag­fræðingur fjár­festingarfélagsins Apollo, bendir á að vaxta­munur í hag bandaríkja­dals gagn­vart evru ætti að þrýsta evrunni nær gengi­sjöfnun (parity), þar sem ein evra jafn­gildir einum bandaríkja­dal. Þrátt fyrir þetta hefur evran haldist í kringum 1,12 dali, sem Slok metur að sé um 10% of hátt gengi miðað við hrein áhrif vaxta­munar.

Þetta bendir til þess að markaðurinn sé undir áhrifum annarra þátta en hefðbundinna vaxtaáhrifa.

Sam­kvæmt greiningu ING banka hefur af­væðing Bandaríkja­dals (de-dollarization) tekið við sér, sér­stak­lega eftir að Donald Trump til­kynnti um gagn­kvæma tolla í byrjun apríl.

Alþjóð­leg eignastýringar­fyrir­tæki hafa í kjölfarið flýtt fyrir dreifingu fjár­festinga og dregið úr vægi bandarískra eigna í eignasöfnum sínum.

Tölur frá japanska fjár­málaráðu­neytinu sýna að er­lendir aðilar fjár­festu í japönskum hluta­bréfum og skulda­bréfum fyrir sam­tals 56 milljarða dala í apríl, sem er mesta inn­flæði í tvo ára­tugi.

Slík til­færsla undir­strikar dvínandi áhuga á bandarískum eignum sem áður voru mið­punktur alþjóð­legrar fjár­festingar.

Ríkis­fjár­mál Bandaríkjanna valda áhyggjum

Ávöxtunar­krafa á 30 ára ríkis­skulda­bréf Bandaríkjanna nálgast nú 5%, sem eykur áhyggjur fjár­festa af sjálf­bærni ríkis­fjár­málanna.

Álagið (e. spread) gagn­vart þýskum ríkis­skulda­bréfum jókst í apríl og hefur ekki gengið til baka, sem dregur úr trausti á skulda­bréfa­markaði Bandaríkjanna.

Fram­koma kín­verska gervi­greindar­fyrir­tækisins Deep­Se­ek hefur vakið upp vanga­veltur um hvort bandarísk yfir­burðastaða í nýsköpun og fjár­málum sé að bresta.

Sam­hliða hátt verðlögðum bandarískum eignum hefur þetta leitt til söluþrýstings á markaði og veikara gengis bandaríkja­dals.

Sér­fræðingar deila nú um hvort þessi þróun sé tíma­bundin leiðrétting eða upp­haf að kerfis­bundinni til­færslu fjár­magns og áhrifa á gjald­eyris­mörkuðum.

Chris Turner hjá ING bendir jafn­framt á að komandi fríverslunar­samningar Bandaríkjanna við helstu út­flytj­endur kunni að fela í sér gjald­miðla­viðauka sem miða að því að draga úr gengisó­jafn­vægi.

Myntir á borð við taívanska dollarann og suður­kóreska wonið, sem hafa styrkst að undan­förnu, gætu þannig orðið áfram sterkar.

Að sama skapi hefur Donald Trump ítrekað sakað ríki á borð við Japan og Singa­púr um að veikja eigin gjald­miðla viljandi til að hagnast í við­skiptum, sem gæti leitt til aukins þrýstings og við­skipta­deilna.