Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, segist ánægður með hvernig verðbólgan hefur þróast heima fyrir eftir að hún þokaðist óvænt upp á við í apríl.
Powell var gestur á opnum fundi með kollegum sínum í Portúgal en þar sagði hann ekki útilokað að vextir yrðu lækkaðir fyrir sumarlok.
Hann sagðist þó ekki vilja lofa neinu um það en það væri þó á borðinu. „Við höfum náð miklum árangri,“ sagði Powell en The Wall Street Journal greinir frá.
Að mati WSJ voru ummæli Powell í takti við tilfinninguna á markaði þar sem flestir eru hóflega bjartsýnir á að vaxtalækkun sé handan við hornið.
Hann sagði jafnframt að efnahagurinn væri á réttri leið samhliða því að verðbólga væri að hjaðna. Bandaríkjamenn geta því enn haldið í vonina um mjúka lendingu.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Bandaríkjanna kemur saman síðar í þessum mánuði en Powell gaf lítið fyrir að vextir yrðu lækkaðir á þeim fundi.
„Við viljum vera alveg sannfærð um að verðbólgan sé á niðurleið,“ sagði Powell á fundinum í Portúgal.