Bandarískir hlutabréfamarkaðir opnuðu með miklum lækkunum rétt í þessu eftir að Kína svaraði nýlegum tollaaðgerðum Donalds Trump forseta með 34% tollum á allar bandarískar innflutningsvörur.
Þetta boðaði Peking í morgun og sagði að tollarnir taki gildi á fimmtudag, degi eftir að stór hluti af tollum Trump tekur gildi í Bandaríkjunum.
„Kína spilaði þetta illa, þau gripu til örþrifaráða,“ sagði Trump í viðbrögðum sínum en The Wall Street Jorunal greinir frá.
Helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum lækkuðu um meira en 3% strax við opnun.
Dow Jones lækkaði um rúm 3%, S&P 500 um 3,65% og Nasdaq um nær 3,9%.
Evrópskir markaðir lækkuðu einnig í viðskiptum dagsins eftir tilkynningu Kína. STOXX Europe 600 lækkaði um 4,5% og er kominn í leiðréttingarfasa. Þýska DAX-vísitalan féll um 4,7% og breska FTSE 100 um 4%.
Í miðri ólgunni kom þó út hagstæð atvinnuskýrsla, þar sem sýnt var fram á 228.000 ný störf síðastliðinn mánuð – vel umfram væntingar markaðarins. Þetta gaf til kynna að vinnumarkaðurinn hafi enn ekki fundið fyrir neikvæðum áhrifum af tollaumræðunni.
Marco Rubio, utanríkisráðherra í ríkisstjórn Trump, sagði í yfirlýsingu að „markaðir séu að hrynja en ekki efnahagskerfi“ og að fyrirtæki muni laga sig að nýjum veruleika.
Olíuverð heldur áfram að falla. Bandarískt hráolíuverð er komið niður í 61,37 dali tunnan, sem er lægsta verðið síðan 2021. Brent hráolía hefur fallið um 7,5% í dag og stendur í 64,89 dölum.
Athygli fjárfesta beinist nú að ræðu seðlabankastjóra Bandaríkjanna, Jerome Powell, sem flytur ávarp kl. 15:25 á íslenskum tíma.
Þar verður vikið að áhrifum tolla og markaðssveiflna á ákvörðunartöku um vexti. Fjárfestar hafa nú hækkað væntingar sínar um vaxtalækkanir – markaðir eru að verðleggja fjórar 0,25% lækkanir á þessu ári.