Bandarískir hlutabréfamarkaðir opnuðu með miklum lækkunum í dag, þar sem helstu vísitölur féllu um allt að 4,5% er fjárfestar bregðast við nýjum víðtækum tollum sem Donald Trump forseti kynnti í gær.
S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 208 stig eða 3,7% frá opnun markaða á meðan Dow Jones hefur lækkað um 1404 stig eða 3,33%. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hríðfallið og hefur verð Brent hráolíu lækkað um 6,4% og stendur tunnan í 70 dölum þegar þetta er skrifað.
Russell 2000 vísitalan fylgist með frammistöðu 2.000 smáfyrirtækja í Bandaríkjunum sem eru skráð á hlutabréfamarkaðnum og hefur lækkað um 4,6%.
Áhrifanna gætir víða á alþjóðlegum mörkuðum. Bandaríkjadalur hefur veikst og er nú á lægsta stigi ársins, sem endurspeglar áhyggjur af framtíðarhagvexti og mögulegri minnkun erlendra fjárfestinga í landinu.
Stór fyrirtæki eins og Apple, Amazon og Nike hafa orðið fyrir verulegum verðlækkunum í morgunviðskiptum.
Nike hefur lækkað um 14%, á meðan Apple hefur lækkað um 9% og Amazon um rúm 7%.
Þetta endurspeglar væntingar um að þessi fyrirtæki muni verða fyrir miklum áhrifum af tollum á lönd þar sem þau hafa framleiðslu.
Þessi neikvæða byrjun bendir til eins viðburðaríkasta dags á fjármálamörkuðum síðustu ára.
Þrátt fyrir lækkanir á helstu vísitölum árið 2025 hafa fjárfestar almennt verið bjartsýnir á alþjóðlegan hagvöxt og tækifæri á bandarískum mörkuðum.
Hins vegar munu tollarnir og alþjóðleg viðbrögð reyna á þetta traust, og viðbrögð dagsins gætu gefið vísbendingu um hvort þessi sýn sé að breytast.

Þá hefur Bandaríkjadalur fallið um meira en 2% gagnvart evru, japönsku jeni og svissneskum franka. Olía og gull lækkuðu bæði í verði og fjárfestar leituðu í örugg ríkisskuldabréf vegna ótta við að tollarnir gætu leitt til samdráttar í hagkerfinu.
Allur innflutningur til Bandaríkjanna verður háður 10% tolli frá og með 5. apríl. Trump mun leggja enn hærri tolla á sum lönd sem Hvíta húsið telur óheiðarlega í viðskiptum. Til dæmis mun Japan standa frammi fyrir 24% tolli og Evrópusambandið 20% tolli frá og með 9. apríl.
Kína mun verða fyrir nýjum 34% tolli, til viðbótar við fyrri tolla, eins og 20% toll sem Trump lagði á fyrr á árinu.
Þetta þýðir að grunntollurinn á kínverskum innflutningi verður 54%, áður en fyrri tollar eru lagðir við.
Einn helsti mælikvarði á áhættufælni fjárfesta, VIX-vísitalan, hefur hækkað um rúm 24% í dag.
Vísitalan, sem mælir vænt flökt S&P 500 samkvæmt verðlagningu á valréttum tengdum henni, stendur í 26,9 stigum um þessar mundir.
Venjulega er talið að fjárfestar séu orðnir áhættufælnir þegar vísitalan er komin yfir 20 stig.
Sögulega séð er vísitalan þó fremur lág en hæsta gildi hennar var um 89 stig þegar efnahagshrunið skók heiminn árið 2008.